Er til hin eina rétta uppeldisaðferð? – Áhugaverðir þættir um mismunandi uppeldisaðferðir

Mér var bent á þættina Bringing Up Baby um daginn. Þættirnir eru um nokkrar fjölskyldur sem allar eru með ungbörn, allar fylgja þær ákveðinni uppskrift þegar kemur að því að hugsa um börnin. Þær fara eftir mismunandi uppeldisbókum og treysta á “sérfræðinga” sem hafa ansi skiptar skoðanir á því hvað sé rétta leiðin til að hugsa um börn. Mér fannst ansi áhugavert að horfa á þennan þátt en ég verð að viðurkenna að ég varð reið, já ég varð hreinlega reið að horfa upp á einn “sérfræðing” þáttanna ráðleggja nýbökuðum foreldrum. Mín skoðun er sú að það er engin ein rétt leið til. Börn eru misjöfn eins og fullorðið fólk og þú agar ekkert nýfætt barn. Mér finnst að það ætti hreinlega að stangast á við lög að kalla sig sérfræðing og ráðleggja foreldrum að loka nýfætt barnið inn í herbergi klukkan 7 og sinna því ekki nema á 4 klukkutíma fresti og þá aðeins til að gefa því að borða. Það má ekki knúsa, kyssa eða strjúka því og ALLS ekki kúra með því upp í rúmi, barnið fær ekki að vera inn í herbergi með foreldrum sínum heldur þarf það að vera í sér herbergi. Barnið er svo látið gráta þar til það gefst upp. Þetta finnst mér hræðilegt og ekkert annað en vanræksla.

Hinar aðferðirnar finnast mér mun mannúðlegri og ég er innilega sammála einum sérfræðinganna sem segir að foreldrar viti í flestum tilfellum hvað hentar þeirra barni best. Ég mæli með þessum þáttum, mér finnst þeir í það minnsta áhugaverðir þó að ég sé svo sannarlega ekki sammála öllum þessum ráðleggingum. Hvað finnst þér um þessar aðferðir?

[youtube width=”600″ height=”325″ video_id=”mSbrA3eO8A4″]

SHARE