Er tíska andfeminískt áhugamál?

Tísku- og snyrtivörubransinn hefur heillað mig frá unga aldri. Falleg föt hafa alla tíð kitlað fagurkerataugarnar og frá því að ég varð nógu gömul til að byrja að mála mig hef ég varið ómældum tíma í að prófa mig áfram í því. Ég nýt þess að eiga fleiri varaliti en ég get nokkurntíman réttlætt fyrir sjálfri mér eða öðrum og ég gæti talað um hárumhirðu í góðan hálftíma væri þess óskað. Oft finn ég þó fyrir skömm og er almennt frekar klofin í afstöðu minni til þessa áhugamáls, bæði vegna neikvæðu hliða bransans og þess hvernig mér finnst samfélagið líta á konur sem hafa fyrir útlitinu án þess að blygðast sín.

Ég vildi að ég gæti tekið jákvæða afstöðu með tísku- og snyrtivörubransanum án þess að fórna öðrum öðrum mikilvægum gildum sem ég hef en það hefur reynst mér ómögulegt að taka bransann í sátt í heild sinni. Hann er mjög gallaður að mörgu leyti. Verandi kona sem telst vera í yfirstærð er ég allt of meðvituð um hversu þröngur ramminn er og hvaða áhrif það hefur á sjálfsmynd kvenna. Ég er einnig meðvituð um þau ömurlegu samfélagslegu vandamál sem fylgja útlitsdýrkun. Mér finnst glatað að þrátt fyrir að tískubransinn sé eins fjölbreyttur og hann er séu 80% af öllum runway-fyrirsætum hvítar. Ég er mótfallin því hvernig förðunarvörur og föt eru auglýst og hvernig konur eru hlutgerðar í nafni tískunnar. Tískubransinn hefur skapað sinn skerf af vandamálum sem hafa áhrif á mig og aðra og þessi skrif eru ekki ætluð til að gera lítið úr þeim.

Að því sögðu langar mig samt að segja að það er alls ekki ófeminískt eða nokkurri konu til minnkunnar að hafa áhuga á tísku og förðun. Í ljósi alls sem ég veit um bransann og hvað hann gerir konum finnst mér oft eins og ég þurfi að skammast mín fyrir að eyða í hann tíma og peningum. En það er líka margt jákvætt við tísku- og snyrtivöruheiminn sem við erum ekki endilega nógu dugleg að skoða eða viðurkenna.

„My definition of a feminist is one who eschews gender roles, believes in female empowerment and works to create an identity absent male approval and oversight.  In my opinion, not only is it possible for fashion/beauty to be feminist but it is necessary. It’s important that women create culturally competent standards of beauty that are unapologetically female-centered“ -Tashira, lögmaður og tískubloggari

Tíska er öflugt listform. Sum af mínum uppáhalds listaverkum eru flíkur. Klæðileg list er ekkert ómerkilegri list en önnur og ótrúlegt hæfileikafólk vinnur þrotlausa vinnu allan ársins hring við að skapa hana.

Hún er einnig mikilvægt tjáningartól. Það að klæða sig er tjáning, þó þú hafir ekki átt nokkurn þátt í að hanna fötin þín. Í hvert skipti sem þú klæðir þig ert þú að miðla einhverju um sjálfa/n þig. Klæðaburðurinn segir mikið um þig, við klæðum okkur eftir tilfinningu og líðan og við viljum að stíllinn okkar segi eitthvað um okkur, og hann getur haft háværa rödd.

„The mere act of considering what to wear can be feminist, in the sense that you’re in an ongoing negotiation with ideas of how you wish to present yourself to the world, self-expression, comfort, safety, signals and signifiers, expectations about age and race and body size and class.“ -Autumn Whitefield-Madrano, bloggari

Tíska er eitthvað sem við eigum fyrir okkur og hvor aðra. Einn algengasti misskilningur tengdur tísku hefur mér fundist vera sú hlægilega mýta að konur klæði sig með það að markmiði að ganga í augun á karlmönnum. Konur klæða sig fyrst og fremst til að líða vel í eigin skinni og fyrir aðrar konur í kringum sig. Fyrir þær sem það kjósa getur tíska verið ákveðið tungumál.

Í tískubransanum fá konur að stjórna óáreittar. Það er leiðinleg staðreynd að konur í gegnum tíðina hafa flykkst að tískutengdum atvinnugreinum vegna þess að aðrar skapandi greinar tóku þeim ekki jafn fagnandi. Tíska hefur lengi verið sá bransi sem konur finna sig í eftir langvarandi flótta undan kynjamisrétti og áreiti á atvinnumarkaðnum. Það hefur þó skilað sér í því að í dag er tískubransinn einn af örfáum atvinnuvettvöngum þar sem sjálfsagt þykir að konur séu við stjórnvölinn. Það er vissulega sorglegt að þeir séu ekki fleiri en því verður þó ekki neitað að í heimi sem er mestmegnis sniðinn að og af karlmönnum, er mikils virði að til sé atvinnugeiri þar sem kvenkyns stjórnendur eru normið.

Nánast allir ritstjórar og pennar stærstu blaðanna eru kvenkyns. Það eru einnig megnið af vinsælustu stílistum, ljósmyndurum, framkvæmdastjórum og auðvitað hönnuðum. Í tískubransanum telst það ekki til tíðinda þegar kona stjórnar ferðinni.

„I personally blame internalized sexism and homophobia for many, but not all, arguments that seek to dismiss fashion or minimize its importance“ -Jenna Sauers

nude-logo-nytt1-1

 Tengdar greinar: 

Tískubloggarar í yfirstærð sem eru slá í gegn

Versace: Sjúklega seiðandi „seventís” síðkjólar í París

Hann hlýtur að vera hommi!

SHARE