Er unglingurinn þinn byrjaður að drekka?

teen drink joint

Við birtum á dögunum sögu föður, sem birti mynd af syni sínum, látnum, á bekk í líkhúsinu. Hann hafði átakanleg skilaboð til allra sem lesa vildu:

Jeramie hélt að hann hefði stjórn á þessu. Hann hélt hann væri klárari en dópið og stjórnaði meiru en fíkniefnin. Núna er hann hinsvegar í kæliskáp í líkhúsinu í Englewood. Fólk flykkist að, allsstaðar að af landinu, til að kveðja hann.

Þessi saga hans er ekkert einsdæmi og fólk er að upplifa það alltof oft og reglulega að missa ástvini og fjölskyldu í dauðann, útaf einhverju sem byrjar sem eitthvað fikt.

Á heimasíðu Lífsýnar er að finna góðar upplýsingar og ráð fyrir foreldra unglinga.

Unglingar sem eru að þreifa sig áfram í heimi fullorðinna telja sig oft geta – og jafnvel eiga – að gera áfengi hluta að sínum lífsstíl.  Flestum er þó ljóst hvað afleiðingar áfengisdrykkja getur haft á heilbrigði og félagslegt umhverfi þess sem drekkur.  Á þetta ekki síst við um áfengisdrykkju ungmenna sem enn eru að taka út þroska.  Foreldrar eru lykilaðilar í að beina börnum sínum inn á heilbrigðan lífsstíl.  Rannsóknir hafa sýnt að umhyggja, aðhald og eftirlit foreldra dregur mjög úr líkum á áhættuhegðun unglinga. Foreldrar ættu hér að hafa nokkur atriði í huga: 

– Því fyrr sem börn byrja að drekka því líklegt er að þau þrói með sér neyslu og prófi önnur fíkniefni.

– Foreldrar þurfa að vera ófeimnir við að ræða við börn sín um kosti þess að fresta að byrja áfengisneyslu og hvernig gott er að segja NEI þegar áfengi er í boði.  Þannig verður unglingurinn betur í stakk búinn til að standast hópþrýsting.  Hann þarf að vita að sá sem ekki lætur undan þrýstingi er sterkastur.  Ef unglingurinn vill ekki ræða þessi mál við foreldra gæti verið gott að finna góðan vin eða ættingja til að ræða við hann.

– Það skiptir unglinga miklu máli að vera eins og hinir, að samsama sig hópnum.  Þess vegna er mikilvægt að  þeim sé það ljóst að meirihluti 15-16 ára unglinga  á Íslandi neytir ekki áfengis.

– Foreldrar unglinga þurfa að standa saman og senda skýr skilaboð um að áfengi sé ekki leyfilegt fyrir unglinga.  Mikilvægt er að fullorðnir láti sig annarra börn varða og láti vita ef þeir verða varir t.d. við drykkju eða reykingar í vinahópnum.  Rannsóknir á viðhorfum foreldra sýna að langflestir foreldrar vilja fá að vita um slíkt.

– Ef unglingurinn kemur drukkinn heim er ekki besta ráðið að hella sér yfir hann með skömmum þá stundina þó freistandi sé.  Mun betra er að koma honum í háttinn og ræða við hann í rólegheitum daginn eftir.  Mikilvægt er að barnið finni að ást foreldra er skilyrðislaus og þó þeir hafi orðið fyrir vonbrigðum með þetta atvik þá muni þeir styðja það og elska áfram.

– Með því að útvega unglingnum áfengi hefur foreldri gefið samþykki sitt fyrir því að barnið drekki.  Ef foreldrar setja ekki mörk þá er líklegra að barnið drekki meira.  Skammturinn sem foreldrarnir nesta barnið með útá lífið verður viðbót við aðra drykki.

– Eftirlitslaus partý eða helgarferðir geta verið unglingnum erfiðar.  Þótt foreldrar treysti sínu barni þá geta aðstæðurnar orðið þannig að barnið ráði ekki við þær.

– Foreldrar eru mikilvægar fyrirmyndir og unglingurinn lærir drykkjuvenjur foreldranna.  Það er umhugsunarvert hvort við séum e.t.v. að kenna börnum okkar að ef á að slappa af eða skemmta sér þá sé áfengi haft um hönd.

– Ekki hika við að leita aðstoðar ef þig grunar að einhver í fjölskyldunni eigi við vandamál að stríða.

Foreldrar og aðrir geta oft greint ýmis einkenni þess, að unglingurinn er byrjaður í fíkniefnaneyslu.  ýmsar breytingar á daglegri hegðun eiga neytendur sameiginlegar: 

– Lífstíll breytist, fatnaður,  viðhorf til lífsins, unglingurinn eignast nýja vini og kunningja og tónlistarsmekkurinn breytist.

– Samband við foreldra rofnar og áhugi á fjölskyldunni minnkar verulega 

– Árangur í skóla versnar, unglingurinn verður áhugalaus um skólann,  en þeim mun áhugasamari um nýju kunningjana.

– Unglingurinn mætir illa í vinnu, boðar forföll og segir ósatt um fjarvistir sínar.

– Sá sem er í fíkniefnaneyslu missir oft áhuga á að þrífa sig og umhverfi sitt

– Öll viðbrögð verða öfgakennd og unglingurinn tekur afskiptum af sínum málum óstinnt upp.

– Peningar hverfa af heimilinu, unglingurinn er staðinn að svikum, lygum og falsi.

– Unglingurinn lendir í höndum lögreglu vegna óreglu eða afbrota. 

Ástæða er til að brýna fyrir foreldrum og öðrum sem eiga samskipti við unglinginn að forðast fljótræði.  Ekki er ráðlagt og því síður sanngjarnt að ákæra unglinginn fyrir drykkjuskap, vímuefnaneyslu og rugl á grundvelli óljósra grunsemda.  Grunsemdir gefa okkur tilefni til frekari athugana að fylgjast skipulega og vel með hegðun og ástandi unglingsins og spyrja hann spurninga.  Þannig fáum við beinharðar upplýsingar sem við getum síðan byggt skynsamleg viðbrögð okkar á.  Þó oftast sé fótur fyrir grunsemdum foreldra, geta vandamálin stundum verið önnur en vímuefni.  Vanhugsaðar fullyrðingar eru óheppilegar við slíkar kringumstæður.  Hafi unglingurinn vímuefnavanda í raun og sannleika er mikilvægt að við höfum skýra mynd af staðreyndunum en ekki aðeins óljósa og óttablandna tilfinningu fyrir vandanum.  Unglingurinn er í vanda sem hann ræður ekki við og æskilegt er að hann finni að foreldrarnir búi yfir öryggi og dómgreind.

 

Heimildir: Lífsýn

SHARE