Ert þú að ofvernda barnið þitt? Ertu þroskaþjófur?

Ef þú vilt stela þroska af börnum þínum, þá eru hér nokkrar „árangursríkar“ aðferðir. En mundu – ef þú vilt að börnin þín verði sjálfstæð, sterk og ábyrg, þá ættirðu að forðast þetta eins og heitan eldinn!

1. Leystu öll vandamálin fyrir þau

Ekki leyfa þeim að takast á við erfiðleika – gríptu alltaf inn í og reddaðu öllu. Skelltu skuldinni á kennarann þegar einkunnirnar eru slakar, afsakaðu þau ef þau gleyma að gera verkefni og bjargaðu þeim alltaf þegar þau lenda í vandræðum. Þannig læra þau aldrei að takast á við lífið sjálf.

2. Ekki setja neina ábyrgð á þau

Gakktu úr skugga um að þau þurfi ekki að taka þátt í heimilisverkum, halda utan um eigin skyldur eða skipuleggja sig sjálf. Ef þau týna hlutum, keyptu nýja. Ef þau koma of seint, skammaðu kennarann fyrir að hafa reglur. Þannig læra þau að aðrir eigi að taka ábyrgð á þeim – en ekki þau sjálf.

3. Bannaðu þeim að gera mistök

Fylltu þau af ótta við að gera eitthvað rangt. Segðu þeim að þau megi ekki taka áhættur, prófa nýja hluti eða fara út fyrir þægindarammann. Ef þau gera mistök, minntu þau endalaust á það. Þannig læra þau að vera hrædd við að reyna og gefast upp áður en þau byrja.

4. Gefðu þeim ekki pláss til að taka ákvarðanir

Vertu alltaf sá/sú sem ræður öllu – hvaða föt þau klæðast, hvaða áhugamál þau stunda og hvaða vini þau mega eiga. Láttu þau ekki æfa sig í að taka sjálfstæðar ákvarðanir, svo þau verði örugglega háð þér að eilífu.

5. Kenndu þeim að forðast óþægindi

Ef þau eru leið, gríptu strax í síma eða leikfang til að trufla þau. Ef þau lenda í deilu, gríptu inn í áður en þau læra að leysa hana sjálf. Þannig læra þau að þolinmæði og tilfinningastjórn séu óþarfi, því einhver annar sér alltaf um að laga allt.

6. Hættu aldrei að skamma og stjórna

Gerðu þeim ljóst að þau geta aldrei verið nógu góð. Minntu þau á allar veiku hliðar þeirra og gerðu lítið úr hugmyndum þeirra. Þannig missa þau trú á eigin getu og verða óörugg, ósjálfstæð og háð staðfestingu annarra.

7. Láttu þau trúa því að þau séu sérstök og æðri öðrum

Segðu þeim að þau séu betri en öll önnur börn, að þau eigi alltaf að fá sínu framgengt og að reglur eigi ekki við þau. Þá verða þau að fullorðnum einstaklingum sem þola ekki höfnun, gagnrýni eða mótlæti – og kenna öðrum um allt sem fer úrskeiðis í lífi þeirra.


Að lokum:
Ef þú vilt börn sem eru ósjálfstæð, óþroskuð og ófær um að takast á við raunveruleikann – fylgdu þessum ráðum! En ef þú vilt að þau verði sterk, ábyrg og lífsfær, þá er kannski betra að sleppa þessu..


Sjá einnig:

SHARE