Hver kannast ekki við það að fara út í mikið rok og allt í einu fara tár að hrynja niður kinnarnar? Sumir upplifa það að tárfella við að hreyfi smávind. Þessir sömu einstaklingar vakna oft upp við að það sé eins og sandur í augunum og að þeir séu „lengi í gang á morgnana“, Fréttablaðið í þoku og erfitt að stilla augun fyrr en lengra er liðið á daginn. Þessir einstaklingar eru líklega með þurr augu. Það sem veldur því að tárin taka að hrynja niður vangana er sú að tvö tárakerfi eru í augunum:
- Smurningskerfi
- Vatnsúðakerfi
Annars vegar eins konar smurningskerfi, sem sér um að halda augunum smurðum og hins vegar einskonar vatnsúðakerfi, sem virka eins og vatnsúðastútar í loftum þegar eldur kemur upp. Þetta kerfi fer í gang þegar við grátum eða þegar við finnum fyrir ertingu í augum. Smurningskerfið er það kerfi sem getur þornað upp. Við það finnum við frekar fyrir ertingu, t.d. eins og að fá vind í augun, og þröskuldurinn lækkar mjög fyrir að vatnsúðakerfið fari í gang. Þau tár eru miklu vatnskenndari (hin eru seigari eða slímkenndari) og „trilla“ niður vangana en smyrja augun lítið sem ekkert.
Sjá einnig: Hvað er það sem flýtur um í augum okkar?
En hvað veldur?
Oft er ekki hægt að finna neinar sérstakar orsakir, en þetta er eitt af því sem verður algengara með aldrinum. Þurr augu fylgja sumum sjúkdómum, eins og gigtarsjúkdómum og sjálfsofnæmissjúkdómum (rauðir úlfar, æðabólgusjúkdómar o.fl.). Lúmskar orsakir geta verið lyf eins og sum magalyf, þunglyndislyf, lyf við bjúgsöfnun, háþrýstingslyf og ofnæmislyf. Kvefpestir og flensur hafa einnig í för með sér minnkaða táraframleiðslu í smurningskerfi augnanna. Svo má einnig geta þess að snertilinsur geta aukið mjög á augnþurrk.
Hvað er hægt að gera?
Gervitár eru augndropar sem líkja eftir tárum okkar. Þau eru fáanleg í öllum apótekum og eru bæði til í dropaformi og gelformi. Geldroparnir eru tilvaldir á kvöldin áður en farið er að sofa þar sem þeir virka lengur en hafa meiri áhrif á sjón, hún verður svolítið þokukennd í nokkrar mínútur eftir að þeir eru settir í. Algeng spurning er þessi:
En verð ég ekki háður/háð gervitárum ef ég er alltaf að nota þau?
Nei og aftur nei. Þetta kerfi slakar ekki á þótt þú vinnir vinnuna fyrir það um tíma. Oft dugir að nota gervitár í stuttan tíma en í einstökum tilvikum getur viðkomandi þurft að nota þau árum saman. Líta má á þetta sömu augum og að bursta tennur, einskonar viðhald og forvarnir fyrir augun.
Annað sem hefur komið fram á undanförnum árum eru silikontappar, sem setja má í táragangaopin sem eru á augnlokum nálægt augnkrókunum. Þessi op leiða ofan í göng, sem kölluð eru táragöng, en þau veita tárunum niður í nefkok. Þessi göng eru nauðsynlegt frárennsli fyrir tárin þegar táraframleiðsla er í lagi. Ef hún er ekki í lagi þá gera þau þurrkinn verri með því að veita burt dýrmætum tárum. Með því að loka göngunum tímabundið eða um lengri tíma haldast tárin í augunum og þurrkur minnkar eða hverfur. Rétt er að geta þess að silikontapparnir eru algjörlega hættulausir og alltaf hægt að kippa þeim úr ef þess gerist þörf
Þessi grein er fengin með góðfúslegu leyfi af heimasíðu Augljós þar sem aðrar fróðlegar greinar eru um augnmein.
Lestu fleiri áhugaverðar greinar á