Ertu að gera litla barnið þitt óþekkt?

Ég á lítinn gullmola sem er ekki nema 6 mánaða gamall og eins og gefur að skilja eru rosalega margir sem dýrka hann og  dá en hann er svo heppinn að eiga tvö eldri systkyni og svo ömmur og afa sem eru dugleg að heimsækja okkur. Öll eigum við það sameiginlegt að elska það að hafa hann í fanginu en höfum oft hugsað hvort við séum að gera honum einhvern óleik með þessu, hvort hann verði “óþekkur” eða “frekur”.

Fyrir tilviljun, þegar ég var eitthvað að skoða á hinu stóra interneti, rakst ég á grein um einmitt þetta mál. Þar er fullyrt að það sé gjörsamlega ekki hægt að spilla barni á þennan hátt, þetta sé rannsakað og sérfræðingar séu sammála um að það sé ekki hægt. Svona lítil börn hafi þarfir og langanir sem eru þær sömu. Aftur á móti séu þeir sem sinna barni sínu sem fyrst og láta það ekki gráta mikið, að ala upp einstaklinga sem upplifa það að þörfum þeirra er mætt og að þau geti treyst á að foreldrarnir eru til staðar fyrir þau. Þar af leiðandi tengjast börnin foreldrum sínum betur og læra seinna meir að róa sig sjálf. Einnig öðlast þau hugrekki, verða ekki eins háð foreldrum sínum og eru allt í allt hamingjusamari.

Hins vegar upp úr sex mánaða aldri byrja börnin að hafa þarfir og langanir sem eru ekki endilega þær sömu. Eins og talað er um í þessari grein, að þá gæti barn um þennan aldur viljað toga í hár þitt eða viljað fá að leika með fjarstýringuna, en eins og liggur í augum uppi að þá eru þetta ekki þarfir barnsins. Upp úr sex mánaða aldri sé því mikilvægt að fara að gera greinarmun á hvort barnið sé að gráta af þörf eða löngun.

Njótum þess að vera með litlu krílin í fanginu fyrstu mánuðina, þetta er tími sem flýgur áfram og engin leið að fá til baka!

SHARE