Ertu andfúl/l?

Það kennir ýmissa grasa á Doktor.is og ein af þeim greinum sem vöktu athygli okkar var þessi grein um andremmu.

Andremma (halitosis) er hvimleitt vandamál sem veldur mörgum ama og jafnvel kvíða í samskiptum við aðra. Það er ekki að ástæðulausu að hillur verslanna eru yfirfullar af tyggjói, myntutöflum, munnskoli og öðrum vörum sem eiga að stemma stigu við þessu vandamáli. Mikilvægt er þó að reyna að átta sig á hver mögulegur orsakavaldur er til þess að fá varanlega bót mála og þurfa ekki að jórtra tyggjó alla daga.

Algengar orsakir og úrlausnir

Matur. Ef matarleifar eru í munninnum eykst vöxtur baktería í munnholinu sem veldur andremmu. Matvæli eins og laukur, hvítlaukur og ýmis krydd valda gjarnan andremmu og mikil sykurneysla getur líka verið orsakavaldur.

Tóbak. Reykingar og munntóbak valda andremmu ein og sér en afleiðing þess að nota annað hvort eykur líkur á vandamálum í munnholi, þá sérstaklega í tannholdi sem aftur getur valdið andremmu.

Léleg munn og tannhirða.  Með því að bursta tennur reglulega, nota tannþráð daglega og hreinsa munnhol með munnskoli hreinsast litlar matarleifar sem annars eru kjörnar fyrir bakteríuvöxt og tilheyrandi andremmu. Ekki gleyma að hreinsa tunguna og skipta reglulega um tannbursta.Tannsteinn myndast frekar ef tannhirða er slæm og hann getur ert tannholdið sem aftur veldur andremmu. Reglulegt eftirlit hjá tannlækni þar sem gert er við mögulegar skemmdir og tannsteinn hreinsaður er þess vegna mikilvægt til þess að ráða bót á vandamálinu.

Munnþurrkur. Munnvatn inniheldur ensím sem aðstoða við að halda munnholinu hreinu. Þess vegna erum við andfúlli á morgnana þar sem það dregur úr munnvatnsframleiðslu á meðan að við sofum. Þess vegna er mikilvægt að drekka vel af vatni. Ef um er að ræða sjúkdóm sem hefur áhrif á munnvatnsframleiðslu þá eru til gel og spray sem eiga að örva hana.

Lyf. Sum lyf geta valdið munnþurrki og önnur hafa áhrif á efnaskipti líkamans með þeim hætti að það veldur andremmu. Fáðu upplýsingar um þetta hjá lækni eða lyfjafræðingi.

Vandamál í munnholi Skemmdar tennur og sýking í tannholdi valda andremmu. Sama má segja um sýkingar í hálsi, nefi og ennis- og kinnholum. Rétt meðferð skiptir því miklu máli.

Aðrar orsakir. Sumir sjúkdómar orsaka vonda lykt úr munni. Vélindabakflæði  er þar algegngasti orsakavaldurinn. Ef þig grunar slíkt skaltu ráðfæra þig við lækni.

Höfundur greinar

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur

Allar færslur höfundar

SHARE