Fyrir stuttu snæddi ég á eþíópíska veitingastaðnum Teni, sem staðsettur er á Skúlagötu. Teni er alveg stórmerkilegt fyrirbæri. Stórkostlegt fyrirbæri eiginlega. Andrúmsloftið, stemningin, ilmurinn, bragðið – ég gæti vel hugsað mér að borða þarna á hverjum degi. Maturinn er dálítið öðruvísi og alveg einstaklega góður. Bragðlaukarnir taka dýfu og tvöfalda skrúfu bara við tilhugsunina. Mmm.
Þessi unaðslega upplifun hófst á forrétt. Sem var djúpsteikt grænmeti með dýrðlegri sósu. Allt sem er djúpsteikt fær hjarta mitt til þess að slá talsvert hraðar þannig að mögulega er ég ekki marktæk þegar um slík matvæli er að ræða. En þetta var gott, ó svo gott. Stökkt, sterkt og stórfínt.
Svo var það aðalrétturinn. Eða aðalréttirnir réttara sagt. Blanda af fimm réttum, takk. Dugir ekkert minna. Maturinn er borinn fram með pönnukökum. Sem nota á til þess að skófla upp í sig. Engin hnífapör. Neibb. Algjör óþarfi.
Bragðið, ó bragðið. Þarna voru allskonar galdrar að eiga sér stað. Hvítlaukur, engifer, rósmarín, chilli – nefndu það. Bragðlaukarnir dönsuðu. Það var fjólublátt ljós við barinn. Svo gott sem.
Sjóðandi heit og ilmandi þvottastykki að lokinni máltíð. Ferlega notalegt og sparaði manni ferð á salernið.
Ég ætla að leyfa mér að mæla með Teni. Alveg eindregið. Þetta var ótrúlega skemmtileg upplifun. Og alveg ægilega bragðgóð. Verðið skemmir heldur svo sannarlega ekki fyrir, sem er stór plús.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.