Fæðingarhálfvitinn

Nei, þetta er ekki pistill um einhvern sem að mér er virkilega illa við – Þessi fjallar um mig!

Ef það var ekki nóg að hafa komist að því að ég er afspyrnu lélegur meðgangari eftir báðar meðgöngurnar mínar, þá komst ég líka að því að mér er ekki ætlað að eiga svona fallega, bíómyndastund eins og í bíómyndunum og í One born every minute þáttunum.

Ég er nefnilega sek um það að hafa haldið og virkilega trúað því að þessi magnaða stund sem að fæðing barns er, já ég semsagt trúði því að ég gæti átt svona ,,grenja úr ást” móment um leið og barnið væri sett í fangið á mér og að fæðingin yrði falleg og aðdáunarverð ,,hetjusaga” sem að fólk myndi tárast yfir þegar að sagan yrði sögð.

Ég hinsvegar varð bara að svona ósjálfbjarga hálfvita í báðum fæðingunum og það var nákvæmlega ekkert sem gerðist sem að hægt er að grenja yfir – nema þá úr hlátri.

Fyrri fæðingin mín átti sér stað á settum degi, þann 12. júní árið 2015.

Ég var alveg viss um það að ég myndi ganga framyfir settan dag – enda er það alltaf þannig, frumbyrjur ganga ,,alltaf” framyfir nema eitthvað sé ,,að”.
Ég var líka búin að fara það margar fýluferðir niður á kvennadeild að ég sagði orðrétt á leiðinni heim úr síðustu ferðinni ,,ég fer ekki aftur þangað fyrr en að hausinn á krakkanum er kominn út” og ég stóð alveg næstum því við það.

Nóttina fyrir settann dag byrjuðu verkirnir, en ég vissi það að ef ég segði Manna og mömmu frá því þá myndu þau drösla mér niðureftir til þess eins að vera send aftur heim með vindverki eða eitthvað jafn ómerkilegt.
Ég beit því bara fast í koddann og drullaði yfir sofandi Manna í huganum fyrir að vera þessi djöfulsins aumingi þegar að verkirnir fóru að verða mjög vondir og harkaði af mér.

Um morguninn þegar að Manni vaknaði var ég orðin svo ógeðslega reið við hann fyrir að hafa sofið alla nóttina á meðan að ég faldi sársauka minn fyrir honum að ég gat ekki yrt á hann. Ég gat því ekkert sagt þegar að hann sá ekkert að því að fara bara í vinnuna þann daginn- helvítið á honum.

Klukkan 13 átti ég tíma hjá ljósmóðurinni minni til þess að hreyfa við belgnum og þangað andskotans ætlaði ég!

Þrátt fyrir það að mamma þyrfti að klæða mig í hollum á milli verkja sem komu á 2-3 mínútna fresti og nánast halda á mér út í bíl gat ég sannfært hana um að þetta væri ,,ekkert svo vont..bara vindverkir eða eitthvað” og við mættum fyrir framan heilsugæsluna í Árbæ rétt fyrir tímann..

(Þið sem búið í Árbæ getið núna ímyndað ykkur aksturinn, með bullandi hríðir frá Viðarási, upp Selásbrautina og að heilsugæslunni, ég man ekki hvort það eru 12 eða 150 hraðahindranir bara á þeirri leið = ég hélt að ég dræpist! og ef það var ekki nóg, þá rataði mamma ekki þangað þannig að ég þurfti að lóðsa hana þangað í þokkabót)

Eftir að hafa afsakað mig fyrir að treysta mér ekki upp stigann og ,,fá” að taka lyftuna, staulast inn á biðstofu og gefið einhverri konu sem að fór óstjórnanlega mikið í taugarnar á mér gott ,,show” hinsvegar fór mamma að fatta hvaða bull væri í gangi. En það kviknaði ekki á perunni fyrr en að  konan sem að ,,faldi” sig (fáránlega illa) á bak við tímaritið stamaði upp úr sér með hneikslunartón eftir að hafa verið með læst augun á mér allan tímann;

,,e, er hún að fæða.. hérna?”

Ljósmóðirin tók svo á móti mér með orðunum:

,,þú lítur nú ekkert sérstaklega vel út”

Svo var mér vippað beinustu leið upp á bekkinn og ég var fistuð í fyrsta skiptið, af fullorðinni konu sem að mér líkaði aldrei neitt sérstaklega vel við.

Það var fyrst þá sem að mig langaði í fúlustu alvöru að biðja hverja einustu kind sem að ég hafði aðstoðað við burð (og þær eru þónokkrar) afsökunar.

Sjokkið sem að ég hinsvegar fékk þegar að ljósan tók hnefann loksins út og ég sá það sem að hékk á hanskanum var HRIKALEGT!

Getur í alvörunni verið að kellingin hafi farið inn um vitlaust gat?
AFHVERJU ER KONAN LÖÐRANDI Í KÚK?!!?

Nei, það sjokk toppaði þó ekki sjokkið sem að ég fékk þegar að hún skammaði mig fyrir að hafa mætt í mæðraskoðun með 7 í útvíkkun og veifaði á meðan slímtappanum framan í mig.

Ég lóðsaði mömmu því beint frá heilsugæslunni og niður á fæðingardeild þar sem að dóttirin fæddist tveimur tímum síðar.

Þegar á fæðingardeildina var komið var mér dröslað beint upp í rúm og ég var loksins kynnt fyrir glaðlofti… ó elsku glaðloftið!

Manni var mættur og ég lá í keng með glaðloftsgrímuna þétt upp við andlitið ofan í baðkarinu. Mamma, manni og ljósurnar tvær sem að voru inni hjá mér voru búin að átta sig á því að þetta myndi gerast hratt – svona miðað við lætin í mér. Svipurinn á þeim varð því frekar præsless þegar að ég reis rólega upp, lagði frá mér grímuna og spurði hvort að það myndi nokkuð skemma fyrir ef að ég fengi mér smá að borða áður en að allt byrjaði.

Manni stökk af stað, hljóp eins og hann gat að sjálfsölunum og kom til baka með pepsí og sómasamloku með kjúklingi og eggi.
En á meðan ég borðaði hana þá áttaði ég mig á því að hænan hefði full vel getað hafa verpt þessum eggjum sjálf og að ég væri því að borða heila fjölskyldu á meðan að ég var að búa til mína eigin. Með það í huga byrjaði táraflóðið sem síðan breyttist í hlátur og svo aftur í grátur og enn í dag á ég mjög erfitt með að borða kjúkling og egg. Ég tók nokkra bita af fjölskyldusamlokunni en hríðarnar komu svo ört að ég hafði lítinn tíma til þess að slappa af.

Ég lá í baðkarinu og notaði glaðloftið eins og súrefnisgrímu þegar að ég byrjaði að fá rembingsþörfina. Eða það hélt ég. Ég hafði unnið heimavinnuna ágætlega (horft á alla one born every minute þættina sem ég komst í) og vissi því að maður ætti að rembast alveg niður í rass, svo að ég prófaði það.. það reyndist þó bara vera þessi fíni kúkur sem að vildi út og óboðni lollin flaut ansi tignarlega við hliðina á mér.

Ef að það var ekki nógu vandræðalegt fyrir litlu frumbyrjuna sem að vildi enn ekki að Manni sinn sæi sig pissa – að kúka á sig í baði, þá kom yndislega ljósmóðirin mín brosandi til mín, segjandi mér að þetta væri nú ekkert mál – ,,þetta gerist alltaf elskan, engar áhyggjur” – á meðan hún smellti sér í hanska sem að náði henni upp á háls, greip lítinn bláan HÁF eins og notaður er til að veiða litla fiska, veiddi upp lollann og bankaði svo helvítis háfnum nokkrum sinnum í baðkarsbrúnina til þess að hrista af honum vatnið og gekk með hann í burtu. Manni lýgur því btw ennþá að hann hafi ekki séð þetta.

Alvöru rembingsþörfin kom stuttu seinna og þá var ég ekki í neinum vafa um hvað ég ætti að gera. Þremur litlum og háværum rembingum síðar var litlu, fjólubláu barni smellt upp á bringuna á mér.

Ég skammaðist mín ó svo lengi fyrir að hafa ekki átt þetta fullkomna gleðimóment þegar að hún loksins kom í fangið mitt, að hafa ekki grátið úr gleði og verið himinsæl. Ég var bara þreytt og vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég grét af hræðslu og sársauka og afþví að mér fannst hún vera alveg eins og Mister Bean. (Ég notaði glaðloftið mjög grimmt!!).

Þá vorum við orðin þrjú og á einu augnabliki, eftir einn koss var ég ekki lengur bara ung og vitlaus stelpa – ég var móðir – kona! Kona sem að fannst hún hafa sigrað heiminn og geiminn (þegar að glaðloftsvíman og sjokkið rann af henni). Kona sem hafði aldrei verið eins stolt af sjálfri sér og þarna.

 

SHARE