Fæðingarsaga – Gat ekki flotið og fætt barnið

fæðingarsaga1
Í hríðunum

Þann þriðja júlí 2012 mætti ég klukkan 8 á fæðingargang Landspítalans í rit og skoðun. Ég hafði verið með hríðir af og til síðustu dagana og nú loksins var komið að því að koma litla stráknum mínum í heiminn.
Ég var mjög hagstæð, með 6-7 cm í útvíkkun og nánast fullstyttan legháls. Það vantaði bara herslumuninn og því var tekin sú ákvörðun að sprengja belginn og koma fæðingunni almennilega í gang.

Kl 10 þann sama dag var belgurinn sprengdur og vatnið hóf að leka. Ég seytlaði rólega af stað í fæðinguna en mér leið nú ekkert sérstaklega vel svona á floti enda fannst mér sem ég væri að pissa á mig. Ég var í buxum sem voru teknar saman í ökklana og þegar ég stóð upp flæddi legvatnið niður fæturna á mér og ég gat ekki annað en hlegið þegar buxurnar reyndust vatnsheldar og hleyptu vatninu ekki í gegn. Hlæjandi skjögraðist ég því inn á baðherbergi þar sem ég fór úr buxunum og gerði mig tilbúna fyrir það sem ég átti í vændum.

Næstu tveir tímarnir liðu nokkuð hratt fyrir sig og upp úr hádegi fóru verkirnir að ágerast.
Það var því látið renna í heitt bað handa mér og þangað fór ég ásamt einhverskonar nagboltum fyrir hunda og svamlaði um í vatninu meðan tíminn flaug frá mér. Klukkan 13:00 var ég komin með glaðloftið í hendurnar og þvílík himnasending sem þetta loft er.
Um 15 mínútum seinna fékk ég svo kærkomna heimsókn en Arney, heimafæðingarljósmóðirin úr Björkinni, kíkti við hjá mér. Eftir að hafa hlustað á mig í hríðunum ákvað hún að fara ekki fyrr en barnið var komið og mikið var ég glöð að hafa hana hjá mér.

Hríðarnar ágerðust en ég beið alltaf eftir því að þær yrðu verri enda átti ég slæma fæðingarreynslu að baki og efaðist um að fæðingar gætu í alvöru gengið vel fyrir sig.
Þarna voru verkirnir ekki vondir, bara pirrandi og í hverri hríð rak ég upp stríðsöskur. Maðurinn minn hélt ég ætlaði að drepa einhvern og hvíslaði því að mér að honum þætti það töluvert betra heldur en hljóðin sem ég gaf frá mér í fyrri fæðingum.

Áfram gengu hríðarnar og kl 14:20 var ég kominn í fulla útvíkkun og mátti byrja að rembast. Það var þá sem ég skipaði manninum mínum úr fötunum og ofan í baðið. Ég vildi nefnilega fljóta í vatninu en gat ekki haldið sjálfri mér floti og fætt barnið.

Hissa og undrandi klæddi maðurinn minn sig úr buxunum og skreið ofan í baðið til mín. Hann tók mig í fangið og í sameiningu komum við yndislega syni okkar í heiminn. Ég fékk hann strax í fangið og var ekki að trúa hversu fljótt og vel þetta hefði gengið. Ég starði bara á þennan unga herramann sem var þarna komin, glænýr og unaðslegur í allastaði.

faedingarsaga
Nýfæddur prins og strax komin í faðm foreldra sinna

Fæðingin var dásamleg og allir þeir sem að henni komu voru yndislegir. Þá sérstaklega ljósmæðurnar mínar Arney, sem fylgdi mér á leiðarenda og Fríða sem tók við okkur hvítvoðungnum og aðstoðaði í gegnum fyrstuvikurnar.

Þetta var dásamleg upplifun og ég hefði ekki trúað því að náttúrulegar fæðingar gætu gengið svona vel fyrir sig.

SHARE