Fæðist barnið í pabbavikunni?

Óhætt er að fullyrða að börn taka fréttir um væntanleg systkini  misvel.  Sum kæra sig ekki um neinar breytingar og kunna því vel að fá ein alla ást og athygli foreldra sinna á meðan önnur bíða spennt eftir  að verða stóra systir eða stóri bróðir. Jafnvel þó spenningur sé fyrir hendi eru nokkuð góðar líkur á afbrýðissemi  eldri systkina þegar barnið er fætt.  Sum eru líka kvíðin á meðgöngunni og óttast hreinlega að foreldrarnir muni gleyma þeim þegar þar að kemur.   Flestir foreldrar  eru meðvitaðir um líðan barna sinna og  leyfa þeim að taka þátt í undirbúningunum og  umönnun nýburans eins og kostur er.  Ekki vilja foreldrarnir að eldra barn þeirra  finni sig útundan þó það eignist systkini.  Ætla má að það sama eigi við um foreldra  sem komnir eru í nýtt samband og eiga barn með stjúpforeldri barna sinna.  Stundum er sameiginlega barnið í stjúpfjölskyldunni kallað „límið“ eða „litli brúarsmiðurinn“.  Ástæðurnar eru einkum tvær. Annars vegar sú að allir fjölskyldumeðlimir tengjast  því líffræðilegum böndum og hins vegar  er sameignlegt barn talið geta gefið fólki ástæðu til að halda út erfið tímabil í stjúpfjölskyldunni  í stað þess að gefast upp og halda hvort í sína áttina.

Sjá einnig: Ófullkomnar stjúpmæður – Bréf frá stjúpu

Eins og gefur að skilja eru hálfsystkinin í annarri stöðu en „litli brúarsmiðurinn“  á heimilinu þar sem þau eiga foreldra á tveimur heimilum.  Oft eiga þau líka stjúpforeldra, hálf- og stjúpsystkini á þeim báðum.  Mörg börn eignast því hálf-  og stjúpsystkini án þess að það komi öðru foreldri þeirra nokkuð við í sjálfu sér. Stundum á báðum heimilum  á sama tíma. Það er því ekki víst að alltaf sé sami skilningur á þörfum hálfsystkina  og svo alsystkina þau eignast systkini .

Hálfsystkinið,  þarf ekki  minni skilning og en  önnur börn. Sumum finnst staða sín í fjölskyldunni veikjast,   þar sem nýja barnið á bæði pabba og mömmu á heimilinu og kann það að vera rétt í sumum tilvikum. Algengt er að pörum finnst „ allt“  mun auðveldara sem snýr að sameiginlegu barni þeirra en þeim sem þau eiga úr fyrra sambandi.

Stjúpforeldri eru venjulega  minna tengdir stjúpbörnum sínum en eigin börnum, sem eðlilegt er, en séu tengslin mjög veik  eru þeir enn síður tilbúnir til að veita þeim stuðning en eigin börnum.  Skiptir ekki máli hvort það sé tilfinningalegur, fjárhagslegur eða annar stuðningur.  Það getur því verið ólíkur skilningur innan stjúpfjölskyldunnar hversu mikinn stuðning á að veita eða hvort þörf er á einhverjum stuðningi.

Hálfsystkini nýburans þurfa hinsvegar rétt eins og önnur börn fullvissu um ást foreldra sinna og að stjúpforeldrinu sé annt um velferð þeirra og líðan. Þau þurfa að fá að vera þátttakendur eins og kostur er. Við undirbúning og eftir fæðingu skapast ný tækifæri  til efla tengsl milli stjúpforeldris og barns. Skoða má gamlar myndir af stjúpfor eldri og barni sem ungabarni, segja sögur úr æsku, aðstoða við val á fatnaði svo fátt eitt er nefnt.  Á sama tíma þarf barnið líka að fá tækifæri til að vera eitt með foreldri sínu en það dregur það úr afbrýðissemi  og samkeppni að skipta fjölskyldunni  reglulega upp, bæði eftir líffræðilegum línum og stjúptengslum.

Sjá einnig: Stjúptengsl: Í Matador með lúdóreglum

Þarfir væntanlegar móður eða föður, stjúpforeldris barnsins geta verið aðrar en barnsins eða makans á þessum tímamótum. Sumum stjúpforeldrum finnst ekkert sjálfsagðara en að  stjúpbörnin séu  á heimilinu þegar barnið fæðist á meðan aðrir hafa miklar áhyggjur af því að það fæðist  í „pabbavikunni“ eða „mömmuvikunni“.  Að eiginmaðurinn verði t.d. meira upptekinn af því að stjúpbarnið verði ekki útundan en þörfum  móðurinnar fyrir stuðning. Jafnvel að stjúpbarnið verði með hávaða og kröfuhart á móður sína þegar hún kemur heim af fæðingardeildinni, sem nýbökuðum föður finnst kannski erfiðara að umbera en móðurinni.

Barneignum fylgir aukið álag, stjúptengsl eru viðkvæm.  Góður undirbúningur skiptir máli og mikilvægt að reynt sér að koma á móts við ólíkar þarfir vilji fólk byggja upp sterka fjölskyldu.  Vinir og vandamenn geta létt undir með því að bjóða eldri systkinum í heimsókn, næturgistingu, bæjarferðir eða annað, jafnframt verið nýbökuðu foreldri stuðningur þann tíma sem hitt foreldrið sinnir börnum sínum úr  fyrra samband. Finnum lausnir sem ganga –  bæði fyrir börn og fullorðna.

Valgerður Halldórsdóttir félagsráðgjafi MA

stjuptengsl

Upplýsingar um námskeið og fleira er að finna á stjuptengsl@stjuptengsl.is

SHARE