Einungis helmingur þeirra hafði uppgötvast og hlotið sjúkdómsgreiningu og meðferð.
Orsakir félagsfælni eru enn lítið þekktar en taugalífefnafræðilegar rannsóknir benda til noradrenergra truflunar og serótónín vanstarfsemi í efnaskiptakerfum heilans. Einnig er talið að hormónasvörun í líkamanum sé úr lagi. Erfðarannsóknir á tvíburum benda til sterkari erfðaþátta og mildari ósérhæfum umhverfis- og uppeldisáhrifum. Vitað er að sjúklingar með félagsfælni eru tífallt líklegri til að eiga ættingja með félagsfælni.
Sjúkdómsgreining er framkvæmd af lækni, oftast af heilugæslulækni eða geðlækni og notast þeir við alþjóðleg greiningakerfi. Ekki er til neitt ákveðið próf sem styðjast má við en læknirinn hlustar á sjúkrasögu viðkomandi og fær þannig upplýsingar um hvenær einkennin hófust og hvernig þau hafa þróast með tímanum. Spurningar læknisins gætu t.d. verið: Finnur þú til ótta innan um fólk eða forðast þú ákveðnar aðstæður? Hefur þetta truflandi áhrif á líf þitt? Að lokum fer fram læknisskoðun og eða geðskoðun. Oft eru gerðar almennar heilsufarsathuganir í til að útiloka að um einhvern annan sjúkdóm sé að ræða.
Vönduð og fagleg sjúkdómsgreining ásamt mati á persónuþáttum og heilsufari er forsenda þess að áhrifarík meðferð sé valin.
Oft er spurt hver sé munurinn á feimni og félagsfælni. Þessari spurningu er ekki auðvelt að svara með einföldum hætti því að um skörun er að ræða. Feimni er almenn og vægari upplifun og veldur minni skerðingu en félagsfælnin er bundin við ákveðnar takmarkaðar aðstæður. Félagsfælninni fylgja líka önnur einkenni kvíða. Þeir sem þjást af félagsfælni eru alls ekki alltaf feimnir eða til baka í samskiptum.
Helstu einkennum má skipta í eftirfarandi flokka:
1) Algengustu fælnieinkennin er að:
• Að óttast að tala fyrir áheyrendum.
• Að hræðast að ræða við hóp fólks.
• Hitta ókunnuga.
• Borða á veitingastað.
• Að verða miðpunktur athyglinnar.
2) Algengustu líkamlegu einkennin eru:
• Hraður hjartsláttur.
• Aukinn sviti.
• Skjálfti.
• Húðroði.
• Ónot og óróleiki frá ristli.
• Höfuðverkur.
• Stytt og grunn öndun.
• Þvaglátakennd.
Til er áhrifarík meðferð gegn félagsfælni:
1. Lyfjameðferð hefur verulega þýðingu til að draga úr einkennum kvíða, depurðar og fælni. Notuð eru venjuleg kvíða- og þunglyndislyf sem ekki valda slævingu eða hættu á ávanabindingu. Það var mikil nýjung þegar þessi lyf komu fram fyrir rúmum áratug og í ljós hefur komið að þau virka mun betur á fælnieinkenni en eldri lyfin.
2. Samtalsmeðferð er alltaf veitt samfara lyfjameðferðinni. Slík meðferð er nauðsynleg til að fræða sjúklinginn um veikindin, viðbrögð við þeim og notkun lyfjanna. Einnig er oft beitt sérhæfum meðferðum t.d. huglægri atferlismeðferð. Algengast er að samtalsmeðferð fari fram hjá geðlæknum en einnig stunda sálfræðingar og margir heimilislæknar slíkar meðferðir.
3. Félagsþjálfun skiptir verulegu máli við að ná tökum á einkennunum og fer fram í tengslum við samtalsmeðferðina. Gerðar eru æfingar í samtölum þar sem máttur ímyndunaraflsins er nýttur en einnig er verklegri þjálfun beitt. Margir hafa gagn af slökunar- og öndunaræfingum. Það að forðast erfiðar aðstæður dregur úr vanlíðan en leysir ekki undirliggjandi ótta. Yfirleitt gengur félagsþjálfunin mun betur ef samfara er beitt lyfjameðferð. Afleiðingar félagsfælni geta verið alvarlegar ef ekkert er að gert. Aukin hætta er á þunglyndi og hætta er á að vinnu- og námsgeta skerðist. T.d. kom fram í erlendri rannsókn að félagsfælni var megin ástæða þess að stúlkur hættu skólagöngu í menntaskóla. Félagsfælni hefur líka áhrif á að heilsu hrakar almennt. Það veldur aukinni notkun heilbrigðisþjónustu og háum kostnaði. Án meðferðar er hætta á endurteknu og langvinnu ástandi jafnvel fötlun. Í einni rannsókn kom fram að hjá 85% þeirra sem hafa alvarlega félagsfælni var veruleg truflun á starfi eða námi. Um helmingur þeirra sem höfðu félagsfælni í menntaskóla luku ekki námi og um 20% fóru á örorku. En auðvitað eru horfur misgóðar eftir alvarleika einkenna. Ein rannsókn sýndi að eftir nokkuð langa meðferð höfðu um einn þriðji sjúklinganna náð fullum bata.
Fleiri frábærar heilsutengdar greinar á
Tengdar greinar: