Ég elska sögur með góðum boðskap sem fær okkur til þess að hugsa jákvætt, vera góð við náungan og gera okkar besta til þess að láta okkur sjálfum og öðrum líða vel.
Hér er gömul en dásamlega falleg saga með þeim boðskap að vera góð við náungan við vitum aldrei hvernig manneskjan er upplögð eða hvað er í gangi í lífi annarra.
Fyrir tuttugu árum vann ég við að keyra leigubíl.
Eitt sinn var ég kallaður um miðja nótt að byggingu sem var mjög dimm, nema eitt lítið ljós var innan við útidyrnar.
Yfirleitt þegar svona aðstæður voru fyrir hendi myndu flestir leigubílstjórar flauta einu sinni eða tvisvar, bíða í stutta stund og keyra síðan í burtu. Ég hafði þó svo oft séð efnalítið fólk sem treysti alfarið á leigubíla sem fararkost sinn. Því hafði ég ákveðið að ef ég tók ekki eftir yfirvofandi hættu myndi ég alltaf ganga upp að dyrunum og banka, sem ég og gerði í þetta skipti.
„Bíddu aðeins“ heyrðist í eldri röddu svara.
Ég heyrði að það var verið að draga eitthvað eftir gólfinu. Eftir töluverða stund opnuðust dyrnar. Lítil kona á níræðisaldri stóð fyrir framan mig. Hún var í fallegum kjól með hatt og var föst stór næla á hattinn. Það var eins og hún væri klippt út úr kvikmynd frá 5. áratugnum. Við hlið hennar var lítil ferðataska.
Íbúðin leit út eins og enginn hefði búið þar árum saman. Það var búið að breiða lök yfir öll húsgögnin. Það voru engar klukkur á veggjunum, engir vasar eða áhöld á kommóðunum. Í horninu var kassi fullur af myndum og glermunum.
„Ertu til í að bera töskuna fyrir mig út í bíl?“ spurði hún. Ég tók töskuna og fór með hana í bíinn, gekk svo til baka og hjálpaði konunni út. Hún tók í handlegginn á mér og við gengum mjög hægum skrefum að gangstéttarbrúninni. Hún var sífellt að þakka mér fyrir góðmennskuna.
„Það var nú ekkert“ sagði ég. „Ég reyni að koma fram við farþegana mín eins og ég vil að komið er fram við móður mína.“
„Æi, þú ert góður drengur“ sagði hún. Þegar við vorum sest inn í bílinn rétti hún mér miða með heimilisfangi og spurði: „værir þú til í að keyra í gegnum miðbæinn?“
„Það er nú ekki styðsta leiðin“ svaraði ég fljótt.
„Það er allt í lagi“ svaraði hún, „ég er ekkert að flýta mér. Ég er á leiðinni á líknardeildina.“
Ég leit við í baksýnisspegilinn og augu hennar glitruðu.
„Ég á enga fjölskyldu“ hélt hún áfram, „og læknarnir segja að það sé stutt eftir hjá mér.“
Ég færði hendina hljóðlega að aksturmælinum og slökkti á honum.
„Hvaða leið viltu að ég fari?“ spurði ég.
Næstu tvo tímana keyrðum við um borgina. Hún sýndi mér byggingu þar sem hún hafði eitt sinn starfað sem lyftuvörður. Við keyrðum í gegnum hverfi þar sem hún og maðurinn hennar höfðu búið þegar þau voru nýgift. Hún bað mig að keyra upp að húsgangaverslun þar sem eitt sinn hafði verið danssalur sem hún hefði oft dansað í sem lítil stúlka.
Stundum bað hún mig um að hægja á fyrir framan ákveðnar byggingar eða við ákveðin götuhorn og sat svo í myrkrinu í aftursætinu og sagði ekki orð.
Þegar fyrstu sólargeislarnir birtust yfir sjóndeildarhringinn sagði hún skyndilega, „ég er þreytt, förum núna.“
Við keyrðum í þögn að heimilisfanginu sem hún hafði látið mig fá.
Þetta var lítil bygging, eins og lítið hjúkrunarheimili og var hægt að keyra alveg upp að byggingunni. Tveir starfsmenn komu út að bílnum um leið og við keyrðum að húsinu. Þeir virtust stressaðir og fylgdust með hverri hreyfingu hennar. Þeir áttu greinilega von á henni. Ég opnaði skottið og tók út litlu ferðatöskuna hennar við dyrnar. Konan var þegar sest í hjólastól sem starfsmennirnir höfðu komið með út.
„Hvað skulda ég þér mikið?“ spurði hún og teygði sig í veskið.
„Ekkert“ sagði ég.
„En einhvern veginn verður þú að lifa“ svaraði hún.
„Það eru aðrir farþegar til þess að sjá um það.“
Án þess að hugsa beygði ég mig niður og faðmaði hana. Hún hélt fast í mig.
„Þú færðir gamalli konu augnablik af dásamlegri gleði“ sagði hún, „þakka þér kærlega fyrir.“
Ég kreisti hönd hennar létt og gekk svo að bílnum. Á bak við mig lokaðist hurðin. Það sem ég heyrði við hurðaskellinn voru lok eins lífs.
Ég fór ekki í fleiri ferðir á þessari vakt. Ég keyrði í hringi og hugsaði. Það sem eftir lifði dags gat ég varla talað. Hvað ef þessi kona hefði fengið reiðan bílstjóra? Eða einhvern sem væri að flýta sér að klára vaktina sína.
Þegar ég horfi til baka þá held ég að ég hafi aldrei gert neitt mikilvægara í lífinu mínu.