Ekki fyrr er Lammily, heilbrigðasta tískudúkka sem hægt er að velja um fyrir ungar stúlkur og drengi í jólapakkana þetta árið, komin á markað en framleiðendur sleppa í loftið niðurdrepandi kynningarstiklu sem sýnir Lammily í meðförum Photoshop.
Myndbandið hefst að sjálfsögðu á skemmtilegu dúkkunni Lammily, sem HÚN kynnti til sögunnar fyrr í vikunni, í eðlilegum stærðarhlutföllum við tökur í myndveri en þegar myndvinnsluferlið hefst má sjá hvernig Lammily er umbreytt úr fallegri tískudúkku sem orkar heilbrigð ásýndar í niðurdrepandi eftirhermu af Barbie.
Myndbandið sem gefið er út í forvarnarskyni og má sjá að neðan felur í sér sterk skilaboð og lýsir í raun þeim ómanneskjulega þrýstingi sem fyrirsætur og aðrar konur í glimmerskreyttri veröld hátískubransans þurfa oft að þola til þess að líta þolanlega út í augum hins vestræna heims. Merkilegt nokk, þá lítur Lammily mun betur út áður en Photoshop kemur til sögunnar!
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.