Stundum fer ég á Hjálpræðisherinn bara til að skoða, en stundum fer ég með ákveðið markmið í huga, ég vil finna eitthvað ákveðið. Þannig var það síðast þegar ég fór. Ég var að leita að viðarskurðarbretti með handfangi. Og ég fann svoleiðis, reyndar ekki skurðarbreytti, heldur svona eins og var svona vinsælt fyrir mörgum árum síðan til að láta undir heita potta. Og þó að þetta hefði ekki verið nákvæmlega það sem ég vildi, þá var þetta nógu nálægt.
Ég byrjaði á því að ræna litlu sporjárni af manninum mínum og losaði plötuna af brettinu. Ég bjóst við að þetta yrði þvílíkt erfitt, en hún losnaði strax af (brotnaði reyndar í nokkra hluta en hún átti hvort eð er að enda í ruslinu). Svo notaði ég skrúfjárn og sporjárnið til að taka af mesta límið sem var eftir áður en ég pússaði restina af (passaði mig á því að skemma viðinn ekki).
Svo var komið að málingu. Ég er rosalega hrifin af þessari krítarmálingu, mér finnst áferðin virkilega skemmtileg og hún þekur rosalega vel, en þú getur notað hvaða málingu sem þú vilt. Ég notaði svo málingalímband til að marka af hvar ég vildi fá svörtu skólatöflukrítarmálinguna og málaði meira (fór 3 umferðir).
Ég bjó svo til slaufu sem ég límdi á og talan setti svo punktinn yfir i-ið.
Ef að ég á að vera hreinskilin þá dauðlangar mig í þetta sjálf, en ég elska systur mína meira þannig að hún fær þetta í afmælisgjöf (bara ekki segja henni að afmælisgjöfin hennar hafi kostað 200 kr.).
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.