Fengu strax boð um áfallahjálp

Skydive hefur gefið út yfirlýsingu vegna dauðsfalls fallhlífastökkvaranna Andra og Örvars:

Ágætu Íslendingar

Við höfum ekki látið verða af því að skrifa hérna inn vegna þessa hörmulega atburðar og þess áfalls sem dauðsfall bræðra okkar, þeirra Andra og Örvars, var okkur en teljum að nú sé kominn grundvöllur til að senda frá okkur eftirfarandi upplýsingar.

Hópurinn ákvað í sameiningu að láta alla spámennsku vera um þennan hræðilega atburð vera en þess í stað standa vel saman, ræða þessa atburði í þaula og bíða eftir niðurstöðum úr rannsókn þeirri sem hefur staðið yfir og tók því þá ákvörðun að tjá sig ekki við fjölmiðla í byrjun þessa ferlis og vonumst við til þess að þjóðin sem og fjölmiðlafólk skilji þá afstöðu hjá hópnum.
Við höfum aftur á móti verið í stöðugu sambandi við syrgjandi ættingja hinna látnu um leið og okkur hafa borist einhverjar upplýsingar er varða rannsóknina sem úrvinnslu atriða er varða þessi andlát. Einnig höfum við unnið náið með ræðismanni Íslands í Orlando varðandi frágang á flutningi hinna látnu til Íslands.

Á mánudaginn hringdum við aftur á móti á allflesta fréttamenn sem fjallað hafa um málið en því miður náðist ekki í alla. Skiljanlega hafa komið fram rangsemdir í sumum fréttum þar sem ekki hafa borist svör af fyrstu hendi en flestar hafa þær verið málefnalegar og virðum við það mikils við hluthafandi miðla og höfunda þeirra frétta.

Í gær kom síðan sú staðfesting sem við höfum beðið eftir en hún varðar áræðanleika búnaðarins sem og staðfesting á hetjumennsku Örvars en rannsókn á myndbandi er hann tók upp í sínu síðasta stökki sannar að hann hugsar bara um það eitt að bjarga nemandanum sínum, sem hafði lent í vandræðum, en ekki um sitt eigið öryggi.

Líðan hópsins er eðlilega mjög blendin eftir þessa atburði. Strax að kvöldi þessa örlagaríka dags fengum við boð um áfallahjálp í gegnum svæðisstjórnina hérna í SkydiveCity en enginn í hópnum taldi sig hafa bráða þörf á slíku á þeim tímapunkti en við höfum nú fengið íslenskan sálfræðing til að koma hingað til að ræða við alla einstaklinga sem í hópnum eru og takast á við þetta mikla áfall með sérfræðiþekkingu sinni.

Margir kunna að hafa spurt sig afhverju hópurinn ákvað að vera hér áfram eftir þetta mikla áfall en hópurinn taldi að best væri að halda sig þétt saman og takast á við það sem ein heild. Einnig skilja þeir sem hafa fengið að upplifa þetta fullkomna frelsi sem fallhlífastökk gefur manni betur hvað það er sem þetta frábæra sport gefur okkur sem það stunda.

Minningin um þessa gæðamenn mun lifa í okkar hugum og teljum við það hafa verið mikil forréttindi að hafa fengið að njóta vinskapar þeirra beggja.

Við færum öllum ættingjum, vinum og vandamönnum okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum Guð að hjálpa þeim og styrkja á þessari erfiðu stundu.

Fyrir hönd íslenska hópsins í Flórída.

Hjörtur Blöndal

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here