Þegar par verður þeirrar gæfu aðnjótandi að verða foreldrar breytist ýmislegt í þeirra lífi. Áhrif barneigna á parasamband foreldra eru misjöfn en það eru ákveðin tímamót í ástarsambandi þegar par eignast barn saman. Rannsóknir hafa sýnt fram á að barneignir eru sú breyting sem hefur hvað mest áhrif á parasambandið. Tíðni sambandsslita virðist aukast á fyrstu árum eftir barneignir. Ýmis úrræði eru í boði fyrir foreldra og nú geta foreldrar farið á námskeið þar sem þeir fá fræðslu um breytingarnar sem geta orðið á sambandi eftir barneignir og hvaða leiðir gætu verið gagnlegar til þess að auka ánægju í sambandinu. Það er alltaf mikilvægt að ræða saman en við könnumst eflaust flest við þau mistök að tala ekki um það sem mætti betur fara og byrgja inn í okkur pirring eða reiði sem hefur slæm áhrif á líðan okkar og sambandið.
Elly Taylor, sambandsráðgjafi, þriggja barna móðir og höfundur bókarinnar “Becoming us: Loving, Learning and Growing Together.” Birti lista yfir það sem mæður vilja að makar þeirra viti. Listinn var upprunalega birtur á síðunni Becoming a dad og hér er hann þýddur.
Fimm hlutir sem mæður vildu að feður vissu
1. Sjálfsmynd nýbakaðrar móður getur verið í molum, sjálfstraustið mjög brothætt.
Að hluta til er þetta af því að við höfum fengið yfir okkur hrinu af upplýsingum um hina fullkomnu móður bæði í sjónvarpi og blöðum – og við erum að komast að því að þær eru fjarri sanni. En þetta veldur því þó að ekki er nokkur leið að verða við væntingum okkar til sjálfra okkar og ef til vill líka annarra til okkar. Mörgum mæðrum finnst að þær séu komnar út í djúpu laugina og verði bara að reyna að ná landi. En það eru engir mælistokkar til sem mæla „ góða frammistöðu foreldra“, engin markmið sem veita manni launahækkun eða einhvern bónus. Það kemur enginn með kampavínsflösku þó að maður hafi skipt snilldarvel um bleiuna. Kannski fengum við hvatningu frá yfirmanni okkar eða starfsfélögum áður en barnið fæddist en nú reiði ég mig á þig. Við þurfum á því að halda að þú veitir því sem við erum að gera athygli, metir það og hvetjir okkur. Ef til vill þarftu líka að segja okkur að þú hafir sams konar þarfir.
2. Við erum líka að læra.
Við vorum sumar með þær ranghugmydir að það kæmi alveg og allt af sjálfu sér að hugsa um barn. Það getur vel verið að sumt komi af sjálfu sér en sumt lærir maður smám saman eða fljótt og það getur valdið okkur sumum verkkvíða. Sumt af því sem við héldum að kæmi eiginlega af sjálfu sér tekur miklu lengri tíma en við bjuggumst við og stundum fylgir því mikil streita að hugsa um smábarn. Þess vegna erum við stundum hugsanlega úrillar. Við biðjum þig að vera þolinmóður og biddu okkur líka um að vera þolinmóðar við þig. Vertu með okkur í því að „læra á“ barnið okkar og deildu með okkur ábyrðinni svo að við berum ekki einar ábyrgðina. Spyrðu okkur hvernig gangi og minntu okkur á að spyrja þig líka. Barnið okkar tekur alla orkuna okkar og við gleymum að hugsa hvort um annað. Sýndu áhuga, spáðu í hvernig er hjá okkur og hlustaðu bara ef þú veist ekki hvað þú ættir að segja. Þetta er ekki vandamál sem þarf að leysa heldur ferð sem við erum að fara saman. Reynum að vera afslöppuð, prófa okkur áfram, gera mistök, fyrirgefa hvort öðru og hlæja saman að mistökunum.
3. Þó að við höfum ekki áhuga á kynlífi segir það ekkert um þig.
Það er alveg satt. Við höfum verið að svara kröfum og þörfum annarrar manneskju allan daginn, fengið yfir okkur mjólk og piss! og litlu hárbeittu neglurnar hafa klórað okkur og tilhugsunin um enn meiri líkamleg, náin samskipti eru ekki aðlaðandi fyrir minn örþreytta líkama. Við þurfum hins vegar sárlega atlot, hlýju og að þú sýnir okkur kærleika án þess að ætlast til að fá eitthvað í staðinn. Við þráum að þú vefjir okkur örmum þínum svo að við getum hvílst í styrkleika þínum eða þú látir renna í baðið eða takir til hendi að laga til í húsinu. Við þurfum að finna að þú elskir okkur og finnist við enn fallegar jafnvel þó að ungbarnaælan sé enn í hárinu á okkur. Það má vel vera að löngunin til kynlífs sé um stundasakir víðs fjarri en þakklæti er stórkostlegt ástarlyf!
4. Við höfum áhyggjur af því að þú, móðir okkar, tengdamóðir og aðrar mæður dæmi okkur en samt erum við sjálfar að dæma okkur.
Einhvers staðar höfum við náð okkur í tvenns konar rugl. Hið fyrra er að við verðum alltaf himinsælar með það að vera mæður og hið síðara er að ef við erum það ekki sé það vísbending um að við elskum barnið okkar ekki. Stundum leiðist okkur eða við erum einmana eða ráðlausar, ráðum ekki neitt við neitt og vonbrigðin ná tökum á okkur. Og þá fáum við margar okkar sektarkennd. Aðrar mæður viðurkenna þetta ekki þó að við höfum áleitinn grun um að flestar hafi þær lent í þessu. Það væri af hinu góða ef við gætum bara rætt um þetta í rólegheitum. En þegar svona er hlaðast upp heilmikil vandamál innra með okkur, þau krauma þarna eins og glóandi hraun í eldfjalli og af því þú ert sá eini sem við tölum náið við lendir allt á þér þegar stíflan brestur.
5. Við héldum að lífið myndi falla í fyrri farveg en okkur er að skiljast að svo verður ekki og aldrei.
Við héldum að við hefðum meiri stjórn á hlutunum en okkur er að skiljast að það er barnið sem ræður a.m.k. nú um sinn. Stundum finnst okkur við vera í búri og þegar svo er öfundum við þig að það er ekki að sjá að tilvera þín hafi breyst mikið. Við vitum að það er ekki þér að kenna en við vitum ekki hvort nokkuð er hægt að gera í því máli. Þegar okkur líður svona getum við verið frekar úrillar þegar þú kemur heim- enn sléttur og fínn í þínum hreinu fötum. Við biðjum þig að skilja að þetta beinist í rauninni ekki að þér þó að það líti auðvitað þannig út. Þetta eru allt svo miklar breytingar fyrir okkur- daglegt líf eftir að barnið fæðist getur verið mjög ólíkt því sem áður var og við horfum fram á að líklega verður það svo næstu átján árin að minnsta kosti. Við þurfum líka að fá frí öðru hvoru til þess að finna okkur aftur. Við þurfum stuðning þinn til þess að svo geti verið og erum þakklátar fyrir hann.
Það getur verið furðu erfitt að hafa orð á því sem ég hef verið að segja hér. Fólk þarf að stilla sig inn á þessa hugsun. Okkur var ekki sagt að þetta væri líka hluti af því að vera foreldri þannig að við gætum vaxið og þroskast með barninu okkar, notið gleðinnar og þess að leysa hin ýmsu mál sem upp koma, aðlaga okkur breyttum aðstæðum, meiri háttar og smávægilegum sem fylgja því að eignast barn til að ala upp og elska. En okkur langar allar að deila öllu þessu með þér. Okkur langar til að þú sért við hlið okkar, við höldumst í hendur og styðjum hvort annað í viðleitni okkar að skapa fjölskyldu okkar mannvænt og kærleiksríkt umhverfi.