Finndu þitt innra náttúrubarn!

Dagrún Ósk er 21 árs og titlar sig sem yfirnáttúrubarn í Náttúrubarnaskólanum á Ströndum. Hún hefur haldið þrjú námskeið í sumar og þar kennir hún fólki að komast í tengingu við sitt innra náttúrubarn. 11350583_768584296594381_1703605273618840424_n

Dagrún segir okkur hér hvernig maður kemst í tengingu við sitt innra náttúrubarn:

Hvernig finnur maður sitt innra náttúrubarn?

Farðu út!

Farðu út og skoðaðu náttúruna og það sem er í kringum þig. Fólk er alltaf að drífa sig en ef maður fer út og tekur sér sinn tíma getur maður fundið ýmislegt sem maður hafði kannski ekki tekið eftir áður þó maður hafi labbað þessa sömu leið þúsund sinnum. Það er ekki verra að taka með sér eitt stækkunargler til að rannsaka það sem á veginum verður.

Lestu, googlaðu og talaðu við fólk

Sjálf hef ég lært mest með því að hitta fólk sem veit sínu viti þegar kemur að náttúrunni og það hefur sagt mér ýmislegt skemmtilegt. Vissirðu til dæmis að skarfakál sem vex í fjörunni bjargaði Íslendingum fyrir ekki svo löngu frá skyrbjúg. Í þjóðsögunum eru selir menn í selsham, huldufólk býr í klettum út um allt land og kindur geta pissað sólskini. Karl- og kventjaldurinn skiptast á að sitja á eggjunum og krían goggar alltaf í þann sem er stærstur í hópnum.

Upplifðu veðrið

Lokaðu augunum og gáðu hvað þú finnur og heyrir. Þetta er sérstaklega skemmtilegt. Maður getur upplifað það á sjálfum sér hvort manni er heitt eða kalt og hvort það er til dæmis mikill eða lítill vindur. Þegar þú ert búin að þessu getur verið gaman að fara inn og skoða hvernig veðurstofa segir að veðrið sé, en alls ekki gera það áður en þú ferð út.

11392912_771888996263911_3035155062649217452_n

Hlustaðu á Náttúruna

Reyndu að finna rólegan stað þar sem ekki er mikið af bílum og umferðarhljóðum og hlustaðu á náttúruna. Það getur til dæmis verið gaman að hlusta á fugla, veðrið, sjóinn, fossa og læki.

Hugsaðu vel um náttúruna

Það er mjög mikilvægt að hugsa vel um náttúruna. Ísland er oft kennt við fallega náttúru og því viljum við alls ekki spilla. Þess vegna er mikilvægt að fleygja ekki rusli á víðavangi eða skemma eða fjarlægja eitthvað sem á heima í náttúrunni. Miklu betri hugmynd er að taka með sér lítinn poka og safna í hann rusli og hreinsa aðeins til í kringum sig.

Smakkaðu náttúruna

Það kemur á óvart hvað er hægt að borða mikið í náttúrunni. Alls ekki fara út og borða bara allt sem fyrir verður samt, en það getur verið gaman að fara út og týna jurtir í eitt jurtaseyði eða búa til krydd. Oft þarf maður ekki að fara langt, í fjörunni er hægt að týna söl sem maður getur þurrkað og borðað eins og snakk og venjulega túnfífla er hægt að steikja á pönnu í smjöri og borða, blöð á fíflum sem eru ekki sprungnir út eru líka fín í salat.

11245533_758168817635929_327708240871940842_n

Notaðu náttúruna

Það er hægt að nýta ýmislegt úr náttúrunni og það getur verið gaman og gagnlegt að sjá hvað maður þarf lítið til. Þá er hægt að gera ýmislegt sem er ekki flókið í framkvæmd til dæmis mála á steina, búa til blómakrans úr fíflum og fleyta kerlingum. Þú þarft ekki að leita langt, finndu náttúruna í þínu eigin umhverfi.

Komdu í Náttúrubarnaskólann!

Komdu í Náttúrubarnaskólann á Ströndum, þar lærir maður um náttúruna á skemmtilegan og fróðlegan hátt. Skráðu þig á námskeið hjá Náttúrubarnaskólanum einhvern fimmtudag í sumar eða komdu á eina af þremur völdum helgum og finndu náttúrubarnið í þér. Nánari upplýsingar um Náttúrubarnaskólann er að finna á facebook.com/natturubarnaskoli.

Ég hvet ykkur til að fylgjast með í sumar og rækta náttúrubarnið!

SHARE