Anna Sigrún Bernharðsdóttir Wilkinson er 29 ára Reykjavíkurmær sem starfar sem rútubílsstjóri og leiðsögumaður. Hún.is ræddi við Önnu Sigrúnu og fékk skemmtilega innsýn í starfið hjá rútubílstjóra sem syngur fyrir ferðamennina.
“Ég vann á hjúkrunarheimili í átta ár og vissi aldrei almennilega hvað ég vildi gera. Ég ákvað að fara í Ferðamálaskóla Íslands og útskrifaðist í fyrra,” segir Anna Sigrún sem fékk strax vinnu sem leiðsögumaður að námi loknu hjá rútufyrirtækinu Sterna. “Þeir spurðu mig hvort mig langaði ekki að drífa mig i meiraprófið og viku seinna var ég byrjuð í ökuskólanum.”
Forðast Frakkastíginn
Anna Sigrún tók meiraprófið fyrir stórar rútur og breytta jeppa sem var ákveðin áskorun.
“Fyrst fannst mér eins og ég væri að læra kínversku en þetta kom mjög fljótt. Prófdómarinn sagði að ég hafði keyrt eins og engill. Ég var mjög stressuð fyrir fyrsta tímann en var fljót að venjast til dæmis breiddinni á rútunni. Núna er þetta bara spennandi. Mér finnst gaman að vera á svona stórum bílum. Held ég hugsi mig samt tvisvar um áður en ég fer aftur niður Frakkastíg niðri í bæ. Við vitum öll hvað það getur verið erfitt að leggja beint í stæði í miðbænum.”
Þurfti að hækka sætið til að sjást betur
Námið í ökuskólanum var skemmtilegt og spennandi að sögn Önnu Sigrúnar.
“Það var tekið vel á móti mér í skólanum. Það fyrsta sem ökukennarinn sagði við mig þegar hann leit á mig var ; við þurfum að hækka sætið svo þú sjáist eitthvað,” segir Anna Sigrún og hlær. “Þegar ég mætti í fyrsta bóklega tímann var ég spurð hvort ég væri ekki örugglega í réttri stofu, sem sagt ekki að taka venjulega bílprófið. Ég hafði voðalega gaman af því.”
Ferðamennirnir oft hissa
Aðspurð segir Anna viðbrögðin við því að sjá unga konu undir stýri í rútunni vera misjöfn.
“Mér finnst konur vera mjög áberandi í þessu starfi og held að það sé að aukast, sem er frábært. Það er oft gaman að sjá mismunandi viðbrögð. Sumir verða mjög hissa en aðrir eru farnir að venjast þessu og kippa sér ekkert upp við þetta. Ferðamennirnir eru meira í því að spurja hvort ég sé virkilega að keyra. Ég grínast stundum í þeim og segist ekki vera með próf. Fyrir nokkrum dögum var ég á stærri rútu og nokkrir karlkyns ferðamenn sem voru að koma með mér i ferð sögðu: such a big bus for such a small woman,” segir Anna Sigrún og hlær.
Öskraði í hljóðnemann
“Mér líður mjög vel í vinnunni og það er alltaf jafn gaman, allavega oftast. Í Gullna hringnum flaug fugl einu sinni beint framan á rúðuna og mér brá svo mikið að ég öskraði í hljóðnemann yfir alla rútuna. Mér tókst sem betur fer að snúa þessu yfir í létt grín. Veðrið mætti stundum vera betra fyrir túristana. Um daginn kom ég bókstaflega heim með alla Reynisfjöruna í hárinu, það var svo hvasst. En það er alltaf gaman að sýna fólki landið okkar og stundum er ég eins og túristi sjálf. Um daginn sá ég geitur og varð svo spennt því ég hafði aldrei séð geit nema í Húsdyragarðinum. Ég enda yfirleitt rúntinn á að syngja fyrir þau, að syngja er með því skemmtilegasta sem ég geri,” segir Anna Sigrún en hún hefur verið meðlimur i gospelkór Jóns Víðalíns síðastliðin þrjú ár.
Fjölskyldan stolt
Móðir Önnu Sigrúnar heitir Ágústa María Jónsdóttir og er fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Faðir hennar heitir Bernharður Wilkinson en hann er hálf breskur og færeyskur og starfar sem stjórnandi í Sinfó meðal annars.
“Fjölskylda mín, kærasti og vinir hafa stutt mig algjörlega með þessa ákvörðun og leyna því ekki að þau eru stolt af litla rútubílstjóranum sínum. Ég er svo þakklát að eiga þau að,” segir Anna Sigrún sem segist hafa átt fjölmörg áhugamál sem barn auk þess sem hún var í sveit á hverju sumri. “Þegar ég var lítil ætlaði ég meðal annars að verða syngjandi kokkur. Ég prófaði allskonar tómstundir eins og tennis, badminton, dans, fótbolta, spilaði á trommur í lúðrasveit, æfði á píanó og var í kór hjá Margréti Pálmadóttur í tíu ár,” segir Anna Sigrún sem einnig er förðunarfræðingur að mennt og hefur því komið víða að.
Öll fjölskyldan undir sama þaki
Rútufyrirtækið Sterna er með aðsetur í Hörpunni eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
“Það er svolítið skemmtilegt að vera með “bækistöðvar” í sama húsi og öll fjölskyldan vinnur í. Bróðir minn Stefán er hornleikari og spilar líka með Sinfó. Pabbi býr reyndar í Færeyjum og kemur hingað til að stjórna Sinfó reglulega en hann er að fara að stjórna á tónleikunum The Wall um helgina. Sterna er fyrirtæki semég er mjög stolt að vinna hjá. Samstarfsfólkið mitt er frábært, allir vinna saman og svo gleymum við líka aldrei að hafa gaman, sem skiptir svo miklu máli. Ég er loksins búin að finna mig í starfi sem ég elska og er að skemmta mér konunglega,” segir Anna Sigrún að lokum.
Hér neðan má sjá myndir úr starfinu sem Anna Sigrún leyfði okkur að birta. Nánari tiltekið í Kerlingafjöllum. Það getur ekki verið amarlegt að vinna við ævintýraleg ferðalög innan um stórbrotna náttúru.