Fiskiréttur með kókos og sætri kartöflu

Ég er svo heppin að fá oft sendan úrvals fisk utan af landi. Þessvegna er ég alltaf á höttunum eftir nýjum uppskriftum af fiskréttum. Ég ákvað að deila með ykkur einni sem klikkar aldrei, en ég er fyrir lifandis löngu búin að gleyma hvaðan hún kom upphaflega.
Ef þið lumið á einhverri góðri uppskrift af fiskrétt, sem þið eruð tilbúin að deila, megið þið endilega senda mér póst á thora@hun.is eða skrifa hana í athugasemdir hér fyrir neðan.

Fiskiréttur með kókos og sætri kartöflu
•    1 kg ýsa eða þorskur
•    1 sæt kartafla
•    1 laukur, gott að nota rauðlauk
•    nokkrir ferskir sveppir
•    1 paprika
•    ½ tsk sjávarsalt
•    ½ tsk svartur pipar
•    2 tsk tandori masala
•    2 tsk sjávarréttablanda frá Nomu (fæst í Fylgifiskum)
•    200 gr kókosmjólk
•    2 ½ msk ólífuolía
•    2 dl hrísgrjón
•    150 gr rifinn ostur
•    lúka af kókosmjöli

Smyrjið eldfast fat með olíu. Roð og beinhreinsið fiskinn ef þarf og skerið í bita, raðið á fatið og kreistið sítrónusafa yfir. Kryddað með salti, pipar og sjávarréttablöndu.  Paprika, laukur, sveppir og sæt kartafla saxað og stráð yfir fiskinn. Hrærið tandorimasala saman við kókosmjólkina og hellið yfir allt saman. Rífið vel af góðum osti yfir og að síðustu er mjög gott að strá pínu kókosmjöli yfir ostinn. Bakið í ofni við 180°C hita í u.þ.b. 30 mín.
Borið fram með hrísgrjónum.

Verði ykkur að góðu.

 

SHARE