Fjögur ráð fyrir fína fætur

Það getur komið fyrir hvern sem er að fá þurra fætur og sprungur í hæla. Það getur borgað sig að gefa fótunum gaum, fara í fótabað reglulega og jafnvel dekra smá við fæturna með snyrtingu og nuddi.

Margir eru berfættir yfir sumarið og sumir lenda í að fá slæman fótaþurrk og sprungur sem jafnvel blæðir úr.  Það eru til ýmsar vörur á markaðnum til að bera á þurra fætur. En ef þú vilt gefa fótum þínum smá tíma koma hér nokkur einföld ráð sem gætu virkað fyrir þig.

1. Fara í volgt fótabað með saltlausn sem virkar vel á sprungna hæla (t.d. Epsom salt). Láta fæturna hvíla í vatninu í 15 – 20 mínútur. Alltaf er nauðsynlegt að þurrka sér vel um fæturna á eftir (ekki gleyma á milli tánna). Bera síðan krem á fæturna og betra er að hafa það feitt fyrir hæla sem eru sprungnir (t.d. Vaselín). Fara síðan í hreina bómullarsokka á eftir svo fitan nýtist áfram.

2. Fyrir suma er gott að raspa þurr svæði varlega og fjarlægja dauðar frumur. Bleyta síðan hæla vel með jurtaolíu og nudda fæturna. Hægt er að nota þá tegund af olíu sem þú átt (t.d. ólífuolíu eða kókósolíu) því flestar þeirra virka vel. Þegar búið er að bera vel á og nudda er gott að fara í hreina sokka og leyfa fótum að mýkjast yfir nóttina. Þú finnur mun að morgni, en þú mátt búast við að það taki nokkur skipti að ná fótunum góðum ef þeir eru illa farnir.

3. Athuga þarf að skór séu passandi og séu þægilegir fyrir fæturna. Þegar notaðir eru klossar eða töflur kemur stundum sigg á hælbarma.  Göngugarpar ættu sérstaklega að leggja sig fram um að halda húðinni mjúkri eða mýkja upp gömlu húðina og skafa til að fyrirbyggja sár. Ef erfitt hefur reynst að mýkja upp sigg má vefja fætur í blauta klúta eða bómullarsokka og setja plastpoka yfir sem festir eru með teygju yfir nótt eða eftir aðstæðum til að láta þá „liggja í bleyti“.

4. Mælt er með að leita eftir faglegri aðstoð hjá fótasérfræðingi eða lækni þegar ástandið er orðið slæmt og sjálfshjálp með heima aðferðum virkar ekki. Sumir eru með inngrónar neglur, líkþorn eða aðra kvilla sem þurfa sérstaka meðhöndlun, sem skilar sér til baka með betri líðan ef hlúð er reglulega að fótunum.

Heimild: heil.is

 

Fleiri frábærar greinar má lesa á heilsutorg.is

heilsutorg

SHARE