Fjöldi barna sem flúið hefur Sýrland nær einni milljón! – Þú getur lagt þitt af mörkum


Sorgleg tímamót í Sýrlandi Ein milljón barna hefur nú flúið yfir landamærin 740.000 þeirra eru yngri en 11 ára UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, með gríðarlega umfangsmikið hjálparstarf


Sorgleg tímamót hafa orðið í Sýrlandi nú þegar ljóst er að fjöldi þeirra barna sem flúið hefur landið hefur náð einni milljón. Um 740.000 barnanna eru yngri en 11 ára.

„Milljónasta flóttabarnið er ekki einungis hver önnur tala,“ segir framkvæmdastjóri UNICEF, Anthony Lake, í sameiginlegri tilkynninu frá UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

„Þetta er raunverulegt barn sem rifið hefur verið að heiman, jafnvel frá fjölskyldu sinni, og upplifað hrylling sem er meiri en við getum einu sinni gert okkur í hugarlund.“

Börn eru helmingur allra flóttamanna frá Sýrlandi og flest hafa leitað til Jórdaníu, Líbanon, Tyrklands, Egyptalands og Íraks. Tæplega tvær milljónir barna til viðbótar eru taldar vera á vergangi innanlands í Sýrlandi.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna átakanna stendur enn yfir og fjöldi fólks hefur lagt henni lið. Söfnunina má styrkja með því að hringja í söfnunarsímanúmerin 908-1000 (1.000 kr), 908-3000 (3.000 kr) og 908-5000 (5.000 kr). Öll áheit til UNICEF í Reykjavíkumaraþoninu um helgina munu enn fremur renna til hjálparstarfsins í Sýrlandi og fjölmargir hlauparar hafa skráð sig.

Bregðumst ekki börnum frá Sýrlandi

Framkvæmdastjóri UNICEF, Anthony Lake, bendir á að alþjóðasamfélagið hafi brugðist skyldu sinni gagnvart milljónasta flóttabarninu.

„Við ættum að staldra við og spyrja hvernig við getum í fullri alvöru haldið áfram að bregðast börnum frá Sýrlandi,“ segir hann.

Stofnanirnar benda á að stóraukinnar viðleitni sé þörf til að finna pólitíska lausn á ástandinu, auk þess sem stríðandi aðilar verði að hætta að beina vopnum sínum að óbreyttum borgurum og hætta að safna liði meðal barna. Enn fremur verði að gera börnum og fjölskyldum þeirra kleift að flýja Sýrland á öruggan hátt og halda landamærum opnum svo þau komist yfir.

Undirstrikað er að þeir sem ekki standi við þessar skyldur sínar, samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum, þurfi að bera ábyrgð á þeim gjörðum.

Frá því að átökin hófust hafa UNICEF og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna veitt milljónum fjölskyldna og barna aðstoð í Sýrlandi og nágrannaríkjunum.

Tengdar greinar
Hræðilegt ástand í Sýrlandi – Pistill frá Bryndísi Gyðu.

SHARE