Fleiri og fleiri konur fara í brjóstnám til að forðast að fá brjóstakrabbamein- En fólk veltir fyrir sér hvort það sé rétta leiðin.
Það kom á óvart þegar Angelina Jolie tilkynnti að hún hefði látið fjarlægja bæði brjóstin til að draga úr hættunni að hún fengi brjóstakrabbamein. Árlega fara fleiri og fleiri konur í brjóstnám og hefur þeim fjölgað um helming á síðustu árum. Kannanir sýna að konurnar eru almennt sáttar við þessa ákvörðun sína.
Lækna greinir á um ágæti aðgerðarinnar því að hún veitir konum ekki fullkomið öryggi. Þetta er meiri háttar aðgerð og konur hafa aðra valkosti. Þær geta tekið lyf sem heitir tamoxifen og dregið þannig verulega úr hættunni og svo þarf auðvitað að fylgjast vel með brjóstunum.
Angelina Jolie taldi að brjóstnám væri eina skynsamlega leiðin fyrir sig til að koma í veg fyrir að hún fengi krabbamein. Í grein sem hún ritaði í New York Times sagðist hún ekki hafa viljað lifa við óttann af krabbameini. „Ég ákvað að taka frumkvæðið og draga úr líkunum á að fá sjúkdóminn eins og hægt væri“. Eins og flestir vita lést móðir hennar ung úr krabbameini.
Dr. Todd Tuttle prófessor í æxlafræðum við háskólann i Minnesóta segir í viðtali við NBC fréttastofuna að þegar konum bauðst orðið að láta rannsaka erfðaþátt brjóstakrabbameina hafi fjöldi þeirra stóraukist sem fengu rannsókn og fóru í brjóstnám að henni lokinni.
Jolie sagði einnig í greininni að BRCA1 gen hennar væri stökkbreytt en það eykur mjög líkurnar á krabbameini í brjóstum og eggjastokkum. Læknar hennar töldu að hættan á að hún fengi brjóstakrabbamein væri veruleg og hættan á að hún fengi krabbamein í eggjasokka væri einnig mikill. Hún segist einnig munu láta fjarlægja eggjastokkana.
NBC fjallaði um málið og Dr. Tuttle telur að ákvörðun Jolie að fara í brjóstnám hafi verið „fljótfærnisleg“. Hún sé allt of ung til að hafa áhyggjur af brjóstakrabbameini, ekki nema 37 ára gömul. Rannsóknir sýna hins vegar að því yngri sem konan er þegar hún fær krabbamein því hatrammlegra og verra viðureignar verður það.
Það er nauðsynlegt fyrir konur að vita að mjög lágt hlutfall kvenna er með þetta stökkbreytta gen. Þess vegna telja margir læknar ekki ástæðu til þess að konur séu að fara í þessa rannsókn nema brjóstakrabbamein sé algengt í ætt þeirra.
Menn velta því fyrir sér af hverju svona margar konur eru að fara í brjóstnám þar sem oftar en ekki tekst að lækna brjóstakrabbamein ef það greinist snemma í ferlinu. Dr. Tuttle telur að skýringin kunni að liggja í „ofurmeðvitund“ um brjóstakrabbamein. Það gleymist líka að mikill meiri hluti kvenna sem fær brjóstakrabbamein læknast.
Læknir á krabbameinsdeild segir að fólk geti aldrei verið of meðvitað
Ekki eru allir læknar sammála þessu viðhorfi. Dr. Sandra Swain, sem er forseti samtak bandarískra skurðlækna og starfar við krabbameinsdeild MedStar sjúkrahússins í Washington segir að auðvitað eigi konur ekki að álíta að þær muni fá krabbamein en hins vegar geti fólk aldrei verið of meðvitað. Hún telur að konur eins og Angelina Jolie sem sagði sína sögu eins og hún var, séu mjög hugrakkar og láti gott af sér leiða. Hún lét rannsaka gen sín og í framhaldi af því var metið í hve mikilli hættu hún væri að fá krabbamein. Þannig sé rétt að öllu staðið.
Það er ekki auðvelt að álykta hve margar konur eru að fara í aðgerðir af heilsufarsástæðum vegna einhvers sem ekki er til staðar. Þesar upplýsingar liggja ekki á lausu. Margar konur láta fjarlægja bæði brjóstin ef þær fá krabbamein í annað brjóstið jafnvel þó vitað sé að krabbamein myndast mjög sjaldan í hinu brjóstinu.
Konur þakklátar Angelinu Jolie
Konur sem greinst hafa með stökkbreytt BRCA1 og hafa undirgengist brjóstnám þakka Jolie og segja hana mikla hetju að segja opinberlega frá ákvörðun sinni. Það væri erfið ákvörðun að fara í svona aðgerð og frásögn Jolie myndi gera konum sem þyrftu að fara í brjóstanám allt ferlið léttara.
Mikilvægt að konur fái réttar upplýsingar um brjóstnám
Dr. Tuttle telur að konur geri sér ekki grein fyrir hvað brjóstnám og uppbygging nýrra brjósta er mikil aðgerð. Konur verði að fá réttar upplýsingar um það. Hann segir margs konar alvarleg vandamál geta komið upp bæði í og eftir aðgerð. Margir telji líka að aðgerðin dragi úr kynþokka kvenna.
Jolie lagði áherslu á það í grein sinni að hún teldi að brjóstnámið hefði ekki dregið úr kynþokka sínum!
Hún segir að hvatinn að baki ákvörðunar sinni sé að geta haft stjórn á aðstæðum. „Lífið sendir okkur margar áskoranir til að takast á við. Við ættum ekki að óttast þær áskoranir sem við getum tekist á við og náð tökum á“.