Fjölskyldudagar í Vogum – Góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna

Fjölskyldudagar verða haldnir í Sveitarfélaginu Vogum dagana 15.-18. ágúst. Fjölbreytt dagskrá er í boði þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og áhersla lögð á virka þátttöku bæjarbúa.

 

Dagarnir hefjast með golfmóti fimmtudaginn 15.ágúst kl. 09:00. Á föstudagskvöldinu koma íbúar saman í hverfum, grilla og leggja lokahönd á skreytingar. Að því loknu verður varðeldur og söngur í fjörunni og foreldrum boðið að grilla sykurpúða fyrir yngri kynslóðina.

Á laugardeginum hefst dagskráin kl 10:00 með hverfaleikum. Ljósmyndasýningar verða í Álfagerði frá 10:00-17:00.  Fjölbreytt dagskrá verður í Aragerði þar sem m.a. verður boðið upp á leiktæki, tónlist, fjársjóðsleit, bílasýningu, karamelluflug, Brúðubílinn, Lalla töframann,  sölutjöld, handverksmarkað og sápufótbolta. Einnig andlitsmálningu, blöðrudýr og margt fleira.

Um kvöldmatarleytið verða hverfagrill á þremur stöðum í Vogunum og upp úr kl. 20:00 sameinast síðan allir í Aragerði. Þar halda hverfaleikarnir áfram, Fríða Dís Guðmundsdóttir (oft kennd við Klassart) ásamt eiginmanni sínum Þorsteini Surmeli,

Regína Ósk, Gylfi Ægisson og Magni munu halda uppi stuði fram að magnaðri flugeldasýningu sem fer í loftið um kl 23:00.

Á sunnudeginum verður áfram opin ljósmyndasýning í Álfagerði, opið hús verður í Hlöðunni, þar bjóða Laura Arena og Veraldarvinir upp á fjölbreytta dagskrá.

Einnig verður fjölskyldudorgveiði, grillaðar pulsur og náttúru- og söguganga úr Vogum í Brunnastaðahverfið.

 

Nánari upplýsingar um dagskrána er hægt fá á heimasíðu Sveitarfélagsins Voga,  www.vogar.is.

SHARE