Íslensk börn eru í auknum mæli að greinast með ofnæmi fyrir fæðutegundum eins og kiwi og hnetum. Þetta segir ofnæmislæknir sem rannsakar nú fæðuofnæmi barna. Umfangsmikil rannsókn á fæðuofnæmi barna fer nú fram á Barnaspítala Hringsins.
Fyrst var fylgst með um 1300 börnum frá fæðingu til tveggja og hálfs árs og ítarlega farið yfir mataræði þeirra. Enn er verið að vinna úr þeim gögnum sem söfnuðust en þau sýna að um 3% barna eru með fæðuofnæmi hér á landi. „Þetta er heldur hærri prósenta en önnur rannsókn gaf til kynna sem framkvæmd var fyrir tíu árum síðan, þannig að fæðuofnæmi er að aukast hérlendis,“ segir Sigurveig Sigurðardóttir ofnæmislæknir sem er ein úr hópi rannsóknar teymisins.
„Við erum að sjá meira ofnæmi fyrir fleiri ofnæmisvökum en fyrir tíu árum síðan, eins og t.d. kasjúahnetum, furuhnetum og kiwi”, segir hún jafnframt.
Að sögn Sigurveigar eru þessi sömu börn nú orðin sex til átta ára og rannsóknarvinnan heldur áfram og þau skoðuð enn og aftur. Tilgangurinn með rannsókninni er að finna út hvað það er í umhverfinu og matarræðinu sem gerir það að verkum að sumir fá ofnæmi en aðrir ekki. Þrátt fyrir að ekki sé komin ítarleg niðurstaða úr þessari umfangsmiklu rannsókn þá segir Sigurveig margt benda til hvað valdi, eins og t.d. þetta með hreinlætiskenninguna: „
Að við séum orðin of steríl og erum ekki í nógu mikilli snertingu við fjölbreytilega bakteríuflóru”, segir hún.
Að lokum segir Sigurveig að stöðugt fleiri rannsóknir sýna að þarmaflóran skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að ónæmiskerfinu og hafa lifnaðarhættir okkar þar mikil áhrif, eins og t.d. of mikið sykurát, of mikið af rotvörnum í matvælum eða of mikil sýklalyfjanotkun.
Þessi grein er birt með góðfúslegu leyfi heilsufrelsi.is
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.