Fljótlegt pasta putanesca

Á heimasíðunni Allskonar er að finna mjög margar góðar uppskriftir og við rákumst á þessa þarna inni. Það er ekkert sem hljómar betur en „fljótlegt“ þegar kemur að svona girnilegum mat. 

Þú getur notað hvaða pasta sem þér finnst best með, ég nota alltaf spaghetti því mér finnst það passa sósunni best.

Puttanesca sósa fyrir 3-4

  • 1 msk ólífuolía
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 3 hvítlauksrif, marin
  • 1 msk capers, grófsaxað
  • 1 rautt chili, fræhreinsað og fínsneitt
  • handfylli ólífur, grófskornar
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 2 dl vatn (Hálf tómatadósin)
  • 1-2 paprikur, sneiddar
  • smá parmesan
  • salt og pipar
  • kryddjurtir eftir smekk
  • pasta eftir smekk og fjölda svangra

 

Undirbúningstími: 5 mínútur

Eldunartími: 10 mínútur

Byrjaðu á að setja vatn og salt í pott fyrir pastað. Settu pastað út í þegar suðan er komin upp og sjóddu skv leiðbeiningum á pakkanum.

Á meðan að pastað sýður þá hitar þú olíu í potti á meðal hita, skellir lauk og hvítlauk út í og steikir þar til laukurinn er glær eða í um 2-3 mínútur.

Þá seturðu capers og ólífurnar út í ásamt chiliinu og steikir í 30 sekúndur.

Settu nú tómatana úr dósinni út í pottinn ásamt hálfri dós af vatni og hrærðu vel. Saltaðu og pipraðu og láttu malla  í 5 mínútur við góðan hita.

Skelltu paprikunum út í síðustu 2-3 mínúturnar og rífðu niður ferskar kryddjurtir eða settu 1/2 – 1 tsk þurrkaðar kryddjurtir út í.

Hellt yfir pastað í skál og rifinn parmesan yfir með smá nýmöluðum svörtum pipar.

 

 

á Facebook

SHARE