Flott sumarstörf á Húsavík: Ert þú geimfari?

The Exploration Museum, sem opnar á Húsavík nú um helgina, leitar eftir geimfara. Hér er full alvara á ferðum og ekkert grín í spilunum, þó starfið sé í léttari kantinum.

 

Í fréttatilkynningu sem safnið sendi frá sér, kemur fram að leitað sé að starfsmanni til að fara um víðan völl á Húsavík og kynna safnið fyrir gestum bæjarins, en í safninu má meðal annars sjá sýningu um æfingar fyrirhugaðra tunglfara, sem fram fóru á Íslandi á sjöunda áratug síðustu aldar. Einnig má sjá og skoða ýmsan fróðleik um landnám víkinga og kapphlaupið á pólana, en Forseti Íslands opnar safnið nú á laugardag.

 

“Við erum að leita að hressum einstaklingi sem hefur gaman af því að ræða við ferðafólk og íslendinga,” segir Örlygur Hnefill Örlygsson, stofnandi safnsins og bætir því við að fljótlega verði auglýst eftir víkingi og jafnvel pólfara og því verði ýmsir könnuðir á ferð um Húsavík á næstu árum. “Þetta verða öðruvísi sumarstörf sem lífga upp á bæinn”.

 

Þeir sem heimsækja Húsavík í sumar mega því búast við að sjá geimfara á rölti í miðbænum.

 

Hægt er að sækja um starfið til 5. júní á slóðinni www.geimfari.com

 

[youtube width=”600″ height=”400″ video_id=”q89hXjn5AyY”]

SHARE