„Á hverjum einasta degi heyri ég einhvern segja að ég þurfi að þyngjast. Bæta á mig kílóum. Að ég þyrfti að fitna. Ég er orðin þreytt á þessum athugasemdum, mér finnst þær ljótar og ég vildi óska þess að fólk fengi bara að vera eins því langar til að vera í vextinum, hvort sem einhver er í yfirþyngd eða of þungur.”
Þessu svarar Thelma Ósk Herbertsdóttir, 16 ára gamall menntskælingur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, aðspurð en hún ritaði og birti pistil á bloggsíðu sinni sl. miðvikudag þar sem hún tekur sterkt til orða og gagnrýnir harðlega þá útlitsdýrkun og kröfur sem almennt eru gerðar til stúlkna og drengja.
Ég skrifaði pistilinn, því á hverjum degi í ansi langan tíma hef ég fengið að heyra óumbeðnar ráðleggingar um vaxtarlag mitt, einhverjir segja að ég eigi ekki að grenna mig meira og svo eru það þeir sem segja að það sé ljótt að vera svona vaxin.
Thelma segir tilganginn með pistlinum einnig hafa verið að koma þeim skilaboðum áleiðis til umheimsins að orð geta sært og að hugtök á borð við átröskun, anorexíu og búlimíu skuli ekki hafa í flimtingum. Um sé að ræða alvarlega sjúkdóma sem erfitt sé að eiga við og að ekki endilega sé sammerki með þeim sem eru grannvaxnir og þeim sem eru að glíma við veikindi.
Fólk skellir þessum orðum bara fram og pælir ekkert í innihaldinu.
Þegar talið berst að þeim breytingum sem Thelma kysi gjarna að koma á með því að skerpa á umræðunni, segir hún að hennar helstu ósk að allir fengju að vera óárettir fyrir skaðlegum athugasemdum um eigin líkamsvöxt.
Ef fólk vill hvorki fara í megrun né fitna sjálft, þá eiga aðrir ekkert með að vera að gera skítlegar athugasemdir við vöxt þeirra. Fólk á bara að fá að vera eins og það sjálft vill.
Blogg Thelmu má lesa HÉR en við birtum pistilinn með leyfi höfundar hér að neðan:
Staðalímyndir
(Á ekki við um alla)
Hvenær er maður of grannur og hvenær er maður of feitur? Mér finnst að þetta ætti ekki að skipta neinu máli svo lengi sem þú ert ánægð/ur með þig í þínum líkama, ekki nema þetta sé virkilega að velta á hvort þú lifir af eða ekki.
Þessar endalausu staðalímyndir eru í sannleika sagt að eyðileggja sjálfsmynd unglingsins. Annað hvort ertu of feitur eða of grannur einstaklingur, það er eins og sumir sjá ekki þessa augljósu línu þarna á milli. Orðið „feit/ur“ er ofnotað, það má varla hafa eitthvað smá utan á sér og þá er maður allt í einu svo feitur? Fólki finnst þetta nú yfirleitt ekki í lagi en nota þessi orð samt óspart. Þú getur verið yfir 100 kílóin án þess að vera eitthvað feit/ur. Það er ýmislegt annað sem hefur áhrif á þyngdina. Ég vil ekki þurfa passa mig hvað ég er að borða útaf hræðslunni við hvað fólk mun segja við mig, er ég að borða of mikið, of lítið eða hvað?
Af hverju truflar það okkur hin svo ofboðslega mikið hvernig aðrir eru í holdafari?
„Hún er með of lítil brjóst/Hún er með of stór brjóst“
„Hún er ekki með neinn rass/Hún er of með of stóran rass“
Og ég spyr þá núna, hverju skiptir þetta máli? Oftar en ekki þá er þetta það sem stelpur pæla í varðandi aðrar steplur. Er maður eitthvað ekki nógu flottur ef við erum ekki með fullkomna stærð af rass og brjóstum? Jújú, smekkur manna er misjafn. En ef við höfum eitthvað neikvætt um þetta að segja, afhverju þá að segja það? Ég get varla trúað því að það gleður fólk vitandi það að þau voru að særa/móðga aðra manneskju útaf eitthverju sem þau geta ekkert endilega lagað.
Það er greinilega alveg svakalega ljótt að kalla manneskju feita, svoleiðis á maður bara ekki að segja.. en það virðist vera í lagi að kalla manneskju anorexíusjúkling, kalla þessa manneskju of granna, sé að detta úr sundur og hvað sem þið viljið kalla fólk sem er mjög mjótt. Þið vitið þetta örugglega en ég vil samt segja að þetta er ekki í lagi. Þetta er alveg jafn ljótt. Það er ekkert minna móðgandi eða særandi þegar maður er kallaður anorexíusjúklingur. Þetta orð er líka ofnotað eins og það að vera feitur. Maður má ekki vera mjög grannur og þá er maður bara anorexíusjúklingur? Steikt. Anorexía er sjúkdómur og eflaust margir sem eru alveg rosalega grannir sem borða endalaust en geta bara ekki fitnað. Oft er það þannig, maður getur ekki fitnað því það er erfiðara að fitna en að grennast fyrir suma. Anorexía er ekkert til að djóka með þar sem afleiðingar þessa sjúkdóms geta virkilega skemmt fyrir manni lífið, getur látist eða jafnvel skaddast alvarlega.
Það er ekkert sem er flottara eða ljótara, smekkur er mjög misjafn svo alhæfingar geta engann veginn átt stað þegar kemur að þessu máli. Ég hef örugglega talað um það við mínar vinkonur hvernig mér finnst aðrir vera vaxnir, en ég áttaði mig þó á því hvað það er rangt og opnaði augun fyrir þessu. Ef þér líður vel eins og þú ert, ekki þá hlusta á hvað aðrir hafa að segja því það sem skiptir mestu er það sem lætur þér líða vel. Þú ert ekki hérna til að þóknast öðrum, og engar auglýsingar, tímarit eða áróður ætti að breyta hugsunarhætti þínum ef þú hefur fundið sjálfa/nn þig.
Sagan með mig.
Ég er 16 ára gömul og hef aldrei farið yfir 50 kíló. Þegar ég stíg á vigtina þá hef ég aldrei séð 50kg eða yfir birtast. Ég er ýmist að flakka á milli 42-46 kíló.
Ég get viðurkennt það að eftir að ég varð þunglynd þá byrjaði ég að grennast mikið og fór að borða minna. En það var ekki útaf ég valdi það, það sem var vandmálið með mig var það að ég sá lítið sem ekkert jákvætt við sjálfa mig þannig ég fór að pæla minna í því hvernig ég var að fara með sjálfa mig. Ég heyrði það daglega að ég væri að detta úr sundur, fólk var að halda á mér bara til að segja mér að þau gætu léttilega tekið mig í bekk, ég heyrði það líka oft að ég væri anorexíusjúklingur. Auðvitað gat ég ekkert verið ánægð með sjálfa mig við þetta endalausa stríð, ég tók öllu mjög nærri mér. Ég reyndi að borða rosalega mikið en aldrei lagaðist neitt og mér fannst alveg rosalega óþæginlegt að mæta í skólann því ég var svo hrædd um að þurfa heyra þetta. Ég er mjög lystarlítil stelpa og get ekki borðað mikið í einu, já ég er algjör gikkur því miður og ég borða sjaldan yfir daginn. En er ég að gera það viljandi? Nei, það er ég ekki að gera. Ýmist hefur mig langað til þess að fitna og jafnvel stundum þá langar mig að léttast aðeins. Ég var aldrei sátt með sjálfa mig, ég heyrði alltaf það sama. Ég var meðal annars kölluð þessu:– Anorexíusjúklingur
– Ert að detta úr sundur
– Byrjaðu að borða
– Borðaru aldrei/Borðaru alltaf svona lítið?
– Hvernig ertu lifandi
– Ertu 20 kíló
– TannstöngullÉg er ekki alltof mjó þó ég sé grönn. Ég skal alveg segja það og viðurkenna að kannski mætti ég vera þyngri, en afhverju skiptir það máli fyrir aðra?
Ef ég er ánægð eins og ég er, er það þá ekki nóg eða þurfa aðrir endilega að koma og hræra í hugsunum manns og skemma jafnvel sjálfstraust?Ég er í endalausu stríði við sjálfa mig, hvað þarf ég að gera? Það veit ég ekki. En ég ætla allavega ekki að hlusta á hvað aðrir hafa að segja ef það er í neikvæðari kantinum. Ég er hætt að taka mark á því sem aðrir segja um mig.
Ef þú vilt hvorki fitna, né grennast þá skaltu ekki gera það því það sem skiptir mestu máli er að þú getir litið í spegil án þess að finna eitthvað að þér. Ef þú sérð myndir þar sem er verið að segja hvað er flottast eða hvernig maður á að vera, þá skaltu ekki taka neitt mark á því. Það getur enginn sagt hvernig maður á að vera, því það er ekki fræðilegur möguleiki á að vera fullkominn og valdamesta manneskja heims getur ekki einu sinni haft vald yfir því hvernig maður á að vera.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.