Frumlegt og girnilegt frá Ljúfmeti.com
Franskar brauðrúllur
- 8 sneiðar af fransbrauði
- Nutella, hnetusmjör og sulta, eða hvaða fylling sem er
- 2 egg
- 3 msk mjólk
- 3/4 dl sykur
- 1 stútfull tsk kanil
- smjör til að steikja upp úr
- Hlynsíróp til að bera fram með (má sleppa)
Skerið skorpuna af brauðsneiðunum og fletjið sneiðarnar síðan út með kökukefli. Setjið um 1-2 tsk af fyllingu um 2 cm frá öðrum enda brauðsins í rönd. Rúllið brauðinu upp og endurtakið með allar brauðsneiðarnar.
Hrærið saman egg og mjólk í grunnri skál og leggið til hliðar.
Blandið sykri og kanil saman í annari skál og leggið til hliðar.
Hitið pönnu við miðlungshita og bræðið um 1 msk af smjöri á henni. Veltið brauðrúllunum upp úr eggjablöndunni og setjið þær síðan á pönnuna með samskeitin niður. Steikið á öllum hliðum og bætið smjöri á pönnuna eftir þörfum. Takið brauðrúllurnar af pönnunni og veltið þeim strax upp úr kanilsykrinum. Berið fram heitt eins og það er eða með hlynsírópi.