Þessi tegund af eggjaköku er eins og þeir gera þær á Ítalíu. Þá er hún fyrst gerð á pönnunni og síðan bökuð í ofninum en þeir kalla þær Frittata, en það er mjög algengt að í þeim séu kartöflur og annað matarmikið. Hér gerði ég hana með beikoni og spínati, svo er gaman að leika sér með innihaldið og eins er gott að nota nokkrar mismunandi tegundir af ostum. Njótið vel elsku vinir!
8 egg
1 dl mjólk
1/2 poki ferskt spínat
8 sneiðar af beikoni
1 lítill laukur
200 gr rifinn ostur
50 gr rifinn parmesan ostur
salt og pipar
smá múskat
lúka fersk basilika
Hitið ofninn í 220°C.
Steikið beikonið – ég geri það alltaf í ofninum. Þegar beikonið er tilbúið, þerrið það þá með eldhúsbréfi og skerið það í litla bita. Skerið laukinn í litla bita og steikið á pönnu upp úr olíu og þegar hann er orðinn aðeins linur skellið þá spínatinu á pönnuna ásamt smá smjöri og steikið það þangað til það verður fallega dökkgrænt og mjúkt, kryddið með salti, pipar og múskati. Hrærið í skál eggin og mjólkina þangað til það freyðir aðeins, kryddið með salti og pipar. Hellið eggjablöndu á pönnuna og hrærið aðeins í þannig að allt blandist vel saman og hellið beikoninu út í. Ekki hræra meira í heldur leyfið þessu að byrja að steikjast á pönnunni í um það bil 5 mínútur. Dreifið þá ostinum yfir og skellið pönnunni inn í ofninn og látið bakast í ofninum í 15 mínútur eða þangað til hún er gullinbrún og farin að lyfta sér aðeins. Dreifið basilikunni yfir og smá óreganó.
Það er svakalega gott að hafa salat með þessu og svo notaði ég balsamik síróp með smá trufflu bragði frá Nicolas Vahé með.