Algeng fyrirspurn er varðandi það hvenær sé kominn tími til að leita til læknis ef ekki verður getnaður. Það er ekkert eitt svar við því, en þess ber að geta að langflest börn verða til án þess að nokkuð hafi sérstaklega verið hugað að því.
Það eru margir þættir sem hafa áhrif á það hvort getnaður verði eða ekki. Þegar par hefur ákveðið að eignast barn, er eðlilegt að hætt sé að nota allar getnaðarvarnir og sjá svo bara til. Í flestum tilfellum verður til barn innan árs án þess að parið breyti í nokkru sínum venjum að örðu leiti en því að hætta að nota getnaðarvarnir. Gerist ekkert fyrsta hálfa árið fara flest pör að hugsa út í það hvort allt sé í lagi. Þá er þó ekki komin ástæða til að fara að örvænta.
Það er ekki fyrr en ár er liðið án þess að getnaður hafi átt sér stað að það er kominn tími til að fara að huga að nokkrum atriðum.
Þessi atriði eru helst:
Er tíðarhringurinn reglulegur? Ef hann er reglulegur eru allar líkur á því að egglos verði í hverjum mánuði. Ef hann er ekki reglulegur er nánast vonlaust að ætla að finna út hvenær egglos verður. En þó má ganga út frá því að egglos verði ca. 14 dögum áður en blæðingar hefjast.
Ef tíðarhringurinn er reglulegur er gott að finna út hvenær egglos er. Það er gert með því að mæla hitann að morgni dags áður en farið er fram úr. Hitinn hækkar við egglos, nauðsynlegt er að endurtaka mælinguna tvo til þrjá tíðarhringi til að geta vitað nákvæmlega hvenær egglosið verður. Samfarir þurfa að hafa átt sér stað áður en egglosið verður svo sáðfrumurnar nái egginu á hárréttu augnabliki.
Er nokkur hætta á að atferli mannsins hafi áhrif á sæðisframleiðslu? Eistun liggja utan líkamans, ástæðan er sú að kjörhitastig sæðisframleiðslunnar er 35°C og því hanga þau gjarnan niður svo loft geti leikið um þau. Karlmaðurinn ætti því ekki að fara mikið í heitu pottana, sána eða heit böð. Það getur haft letjandi áhrif á sæðisframleiðsluna og gert sáðfrumurnar kraftlausar. Það að fara í heitu pottana daglega getur þó aldrei virkað sem getnaðarvörn.
Eru samfarir tiltölulega reglulega, ekki of oft og ekki of sjaldan svo að getnaður geti orðið? Séu samfarir sjaldan, fjórum sinnum eða sjaldnar í mánuði er ljóst að líkur á getnaði minnka verulega. Þá er sérstaklega mikilvægt að finna út hvenær tíðarhringsins egglos á sér stað og stíla samfarir inn á þann tíma.
Þegar egglos verður breytist slímhúð legsins, það er til þess að auðvelda sáðfrumunum að komast að egginu. Það getur skipt máli að gefa sér góðan tíma í samfarirnar, rakinn auðveldar sáðfrumunum sundið. Það er svo um að gera að liggja áfram í rólegheitum góða stund áður en brölt er á fætur og þyngdarlögmálið látið vinna gegn getnaði.
Verði ekki getnaður þrátt fyrir að þessi atriði séu í lagi er kominn tími til að hitta lækni. Það þurfa báðir aðilar að hitta lækninn, ekki er nóg að konan fari.
Það er heilmikið lesefni til um frjósemi til og má finna margar greinar á doktor.is Þar er líka að finna fína grein um tíðarhringinn, en það er öllum hollt að rifja upp hvernig hann gengur fyrir sig.