Sú spurning hvað rekur Íslendinga til Noregs er rauði þráðurinn sem liggur gegnum einkar áhugaverða heimildarmynd sem þáttagerðarmaðurinn Eggert Gunnarsson er nú í óða önn að setja saman, en RÚV hefur ákveðið að taka myndina til sýningar á vormánuðum 2015.
Nú stendur yfir fjáröflun á Karolina Fund vegna heimildarmyndarinnar, en að sögn Eggerts snýst átakið um að safna því sem upp á vantar svo gerð myndarinnar, sem hann hefur lengi unnið að til fullnustu, megi verða að veruleika. Sjálf myndin ber heitið Fyrirheitna landið? Íslendingar í Noregi og fjallar um þá fjölmörgu einstaklinga sem af íslensku bergi eru brotnir og búa í Noregi.
Kristín Guðmundsdóttir og Heiðar Árnason
Sterkar og litríkar persónur sem hafa lagt ólík ferðalög að baki
Segir Eggert tilganginn vera að forvitnast um hagi þeirra einstaklinga sem hafa tekið sig upp frá Íslandi og grafast fyrir um ástæður þess að hinir sömu fluttu búferlum yfir hafið, en að svörin séu margvísleg og að hver hafi ólíka sögu að segja.
Fyrri ferðin hefur þegar verið farin og ræddi Eggert í það skiptið við hjónin Ívar Örn Sverrisson, leikara og Örnu Ösp Guðbrandsdóttur arkitekt ásamt Berglindi Magnúsdóttur, íþróttafrömuð og Valdimar Þór Svavarsson, fyrirlesara og á tíðum fasteignasala og eiginmann Berglindar. Þau hjónin hafa nú snúið aftur til Íslands en rætt var meðal annars um ástæður þess að þau tóku sig upp frá Íslandi og sneru svo heim aftur eftir tveggja ára búsetu ytra.
Hjónin Elín Björk Heiðarsdóttir og Ingimundur Birnir ásamt Björt, dóttur þeirra koma einnig fyrir. Elín er heimavinnandi en Ingimundur starfar hjá norska fyrirtækinu Norsk Hydro og hefur gert um skeið. Kristín Guðmundsdóttir og Heiðar Árnason, sem búsett eru rétt utan við Osló segja einnig sögu sína, en þau eiga tvö börn og eru búsett rétt utan við Osló.
Berglind Magnúsdóttir og Valdimar Þór Svavarsson
Heyrnarlausi skólastjórinn, vaxtarræktar-presturinn og víðförula olíukonan
Eggert hyggur á aðra ferð ytra á haustmánuðum og segir afar áhugaverð viðtöl framundan í Noregi en að enn sé að bætast í hópinn, sem er ansi fjölbreyttur og litríkur, rétt eins og úrval Íslendinga sem búsettir eru í Noregi í dag. Má þar nefna Betty Berglindi Stefándsóttur, sem er skólastjóri Ål folkehøgskole og kurssenter for døve, en Berglind, sem er sjálf heyrnarlaus var að eigin sögn afar undrandi að hreppa stöðuna í Noregi. Eggert mun sækja Berglindi heim í skólann til að fylgjast með skólastjóranum við dagleg störf.
Þá segir Jóna Lovísa Jóns-Ólafsdóttir sögu sína en hún er prestur og starfar í Kongsviker í Heiðmörk. Jóna Lovísa flutti búferlum fyrir skemmstu, en hún stundar einnig líkamsrækt af kappi í frístundum sínum.
Berglind Magnúsdóttir og Valdimar Þór Svavarsson
Ómetanleg heimildaöflun um daglegt líf fráfluttra Íslendinga á norðurslóðum
Þröstur Eiríksson organisti hefur búið og starfað í Osló í hartnær 30 ár, en leikur í kirkjum og kennir líka á orgel. Þá ræðir Eggert við Sædísi Helgu Guðmundsdóttur sem búsett er í Ulsteinsvik á vesturströnd Noregs, þar sem fjölskylda hennar er búsett en hún sjálf fékk starf ekki alls fyrir löngu hjá fyrirtæki sem þjónustar olíuborpalla á Norðursjó. Þar dvelur Sædís á skipi í fjórar eða sex vikur í senn og dvelur svo jafn margar vikur í landi. Þá er enn ónefndur flugþjónninn Kristján Steinsson sem starfar hjá Norwegian Air og er búettur í Osló, en Eggert hyggur á flugferð með Kristjáni og mun gægjast að tjaldabaki í flugklefanum.
Enn hafa fleiri viðmælendur af íslensku bergi brotnir bæst í hópinn, en Eggert mun þannig heimsækja fimm íslenskar konur sem starfa saman á hárgreiðslustofu í Osló og Lena Larsen og fjölskylda hennar, sem er í þann mund að taka móti nýjum fjölskyldumeðlim, munu opna dyrnar fyrir áhorfendum. Rannveig Snorradóttir, sem búsett er ásamt syni sínum í sama húsi og móðir hennar, stjúpfaðir og þrjú systkini í Korsvold í Osló rekja sögu sína, en Rannveig tók við verðlaunum fyrir vel unnin störf í ferðamannaiðnaðinum í sumar.
Elín Björk Heiðarsdóttir
Fjáröflun gegnum Karolina Fund ætlað að standa straum af nauðsynlegum kostnaði
Segir Eggert tilganginn vera þann að leitast við að birta raunhæfa mynd af hversdagslífi þeirra skapandi og áræðnu Íslendinga sem hafa flutt búferlum yfir hafið og sest að í Noregi, en að ómetanlegt sé að mega rannsaka innri viði þjóðfélagsins; að sjá gegnum linsuna hvernig Íslendingum er tekið er ytra og skynja hvernig þeim sömu líður í þeim sporum sem þau hafa sjálf ratað í á þessari stundum.
Með þessu móti fá íslenskir áhorfendur heima við kost á því að fá innsýn í það þjóðfélag sem samlandar þeirra hafi kosið að flytja til – segir Eggert að endingu.
Sem fram kom hér að ofan stendur nú yfir söfnum á Karolina Fund í fjáröflunarskyni svo standa megi straum af kostnaði við gerð heimildarmyndarinnar: Smellið HÉR til að fræðast fremur um verkefnið.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.