Ástfangnir ferðalangar sem riðu djarflega á vaðið og tylltu allra fyrsta ástarlásinum í gluggasyllu Hallgrímskirkjuturns fyrir skemmstu hafa ratað í íslenska fjölmiðla og það ekki af góðu.
Það voru blaðamenn Morgunblaðsins sem festu ástarlásinn á filmu og fengu starfsmenn Hallgrímskirkju þá fyrst veður af lásnum gegnum vef mbl.is, en ástarlásinn mun hafa verið tryggilega festur snemma árs 2015 og voru þau Michaela og Will að verki; sýnilega hugfangin af hvoru öðru.
Skemmst er frá því að segja að ástarlásar hafa notið mikillar hylli undanfarin ár, borgaryfirvöldum Parísar þannig til ama og önugheita, en hluti úr öflugri brú er stendur við Pont des Arts hrundi sl. sumar undan þunga ástarlásanna sem festir voru á handrið brúarinnar – sem þá vó ein 54 tonn að þyngd er burðarvirkið gaf sig undan þunganum.
Hér má sjá hvernig ástarlásarnir tóku sig út rétt áður en hluti af frönsku brúnni hrundi:
Heimildir Morgunblaðsins herma að starfsmenn Hallgrímskirkju taki enga slíka áhættu með turninn sjálfan – vilji svo til að fleiri ferðamenn feti í hugljúf fótspor þeirra Michaelu og Will á komandi misserum. Þannig verði ástarlásinn fjarlægður áður en reykvísk borgaryfirvöld sjái til knúin til að skerast í leikinn á sambærilegan máta og yfirvöld Parísarborgar á sl. ári, en hluti brúarinnar í París var fjarlægður – lásum kærleika og friðar fargað og öflugt öryggisgler sett upp við handriðið til að koma í veg fyrir að fleiri ástsjúk pör stefndi öryggi almennra borgara í hættu á fyrrgreinda vegu.
Ástfangnir ættu þó ekki að örvænta þó starfsmenn Hallgrímskirkju taki enga áhættu hvað turninn varðar, þar sem fjölmargar ástarbrýr standa enn keikar víðsvegar um heimsbyggðina. Þannig er enn hægt að innsigla kærleikann í Þýskalandi, Suður Kóreu, Rússlandi og Ítalíu svo eitthvað sé nefnt – en áfangastaðina sjálfa má skoða HÉR
Tengdar greinar:
Yfirvöld Parísarborgar rífa niður ástarlása af brúm
Ferðalög: Átta sjóðheitir áfangastaðir fyrir einhleypa
Hún elskar Instagram: Vor í París #SPRINGINPARIS
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.