Fyrstu 20 gestirnir fá ársbirgðir af kleinuhringjum

 

Þegar dyr Kringlunnar verða opnaðar klukkan 10:00 í dag mun starfsfólk Dunkin´ Donuts á Íslandi afgreiða viðskiptavini sína í verslunarmiðstöðinni í fyrsta skipti, en annar staðurinn hér á landi opnar þá í Kringlunni. Árni Pétur Jónsson, forstjóri Dunkin´ Donuts, á von á því að Kringlugestir taki vel í opnunina og segir það hafa sýnt sig undanfarna þrjá mánuði að þær veitingar sem Dunkin´ býður upp á leggjast vel í landsmenn. „Viðtökurnar á staðnum á Laugavegi voru mjög góðar og hefur starfsfólk okkar haft í nógu að snúast frá opnun. Við erum virkilega ánægð með hversu vel hefur tekist til og erum tilbúin fyrir fjörið sem Kringlan býður upp á,“ segir hann.

 

S og Á

Dunkin´ Donuts er staðsett á Blómatorginu á fyrstu hæð Kringlunnar og tekur staðurinn 30 manns í sæti en Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri verslunarmiðstöðvarinnar, segist hafa orðið var við mikinn áhuga fólks fyrir opnuninni frá því að fregnir þess efnis spurðust út í lok ágúst. „Það er greinilegt að Íslendingar kunna að meta veitingar Dunkin´ Donuts og viðskiptavinir Kringlunnar eru jú þverskurður þjóðarinnar þannig að þetta getur ekki verið annað en gott mál. Við bjóðum starfsfólk og viðskiptavini Dunkin´ velkomna í húsið,“ segir Sigurjón.

 

SHARE