Íris Björk er komin í útrás með fyrirtækið sitt, Vera Design, og viðurkennir að hún fái í magann við tilhugsunina um hvað fyrirtækið sé allt í einu orðið stórt.
„Ég fæ alveg pínu í magann við tilhugsunina um þetta. Ég er vön að vera bara ein á skrifstofunni að vinna texta, búa til lógó, teikna nýjar vörur og pakka inn. Allt í einu er farið að biðja mig um alls konar skýrslur og annað sem fylgir útflutningi. Þetta er orðið svolítið stórt. Miklu stærra en ég bjóst við,“ segir Íris Björk Tanya Jónsdóttir sem keypti hönnun Guðbjarts Þorleifssonar gullsmiðs fyrir fjórum árum og stofnaði í kringum það fyrirtækið Vera Design sem nú er komið í útrás.
Kim og Kanye fengu gjafir
Um var að ræða armband með trúartáknum sem framleitt var í kringum kristnihátíðina á Þingvöllum árið 2000. Gripurinn hafði þá ekki formlegt nafn er Íris nefndi hann Infinity armband. „Það er sú vara sem ég hef unnið mest með og hef hannað mína eigin línu út frá því,“ útskýrir hún.
Vörur Vera Design fara í sölu hjá Airport Retail Group í sumar, en það er norskt fyrirtæki sem rekur verslanir á flugvöllum, bæði hér á landi og erlendis. Þá er Íris komin með umboðsmann í Svíþjóð, Sigríði Maríu Sundin, til að markaðssetja vörurnar þar í landi. Sigríður hefur sjálf framleitt og selt fatnað undir merkinu Hattemarks síðustu 17 ár og Íris segir hana því vel kunna á sænska markaðinn.
Íris segir mikilvægt að vera duglegur að ota sínum tota og nýta öll sambönd til að ná árangri, en hún hefur alltaf stefnt hátt. Íris notaði sambönd sín til dæmis til að færa Kim og Kourtney Kardashian og Kanye West gjafir þegar þau vöru stödd hér á landi fyrr á þessu ári. „Ég veit reyndar ekkert hvað varð um gjafirnar, en Jonathan Cheban tók að minnsta kosti á móti þeim,“ segir hún kímin.
Missti allt í hruninu
„Ég er ofsalega þakklát fyrir móttökurnar. Boltinn fór að rúlla af alvöru þegar ég kom vörunum í sölu hjá Icelandair. Síðan hafa þeir verið alveg frábærir og duglegir að taka inn nýjar vörur frá mér sem hafa verið að seljast mjög vel.“
Það er óhætt að segja að vinsældir Vera design hafi vaxið hratt, en Íris segir söluna hafa tekið stökk eftir að hún setti hálsmen með æðruleysisbæninni á markað á síðasta ári.
„En það að stækka of hratt getur líka verið hættulegt,“ segir Íris sem hefur reynsluna af því að fara aðeins fram úr sjálfri sér. Hún tók þátt í góðærinu af fullum krafti, byggði og fjárfesti eins og enginn væri morgundagurinn. „Ég missti töluverða fjármuni og týndi sjálfri mér í smá tíma. Ég dvaldi samt ekki við það heldur reif mig fljótt upp. Ég er ekki fyrir eymd og volæði. En þetta er pakki sem ég lærði af og vona að fleiri hafi gert. Ég reyni því að fara varlega af stað og taka þetta á auðmýktinni. Lífið er núna og kannski ekki á morgun, þannig kýs ég að lifa mínu lífi. Ef draumar þínir hræða þig ekki þá eru þeir ekki nógu stórir.“