Eva Laufey stýrir óhefðbundnum matreiðsluþætti á Stöð 2 ásamt Gumma Ben. Þá er hún að leggja lokahönd á nýja pastelbleika kökubók.
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir er með mörg járn í eldinum að vanda, en hún er nú að leggja lokahönd á nýja kökubók, á leið í tökur fyrir Ísskápastríð, sem er nýr þáttur á Stöð 2, ásamt því að vera að ljúka síðasta ári í viðskiptafræði.
Fær hugmyndir í bakaríum
„Ég er bara að klára að baka og Karl Peterson myndar fyrir mig, svo kemur bókin út í október. Mig hafði alltaf langað að gefa út bara kökubók, þannig þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Þetta er mjög rjómalöguð og pastelbleik kökubók,“ segir Eva Laufey og hlær. Hún virðist vera óþrjótandi uppspretta hugmynda að girnilegum kökum, en hún er dugleg að leita sér innblásturs hvar sem hún fer. „Mér finnst kökur svo góðar. Ef ég fer í bakarí, hvort sem það er hér heima eða í útlöndum, þá fæ ég alltaf nýjar hugmyndir. Þegar ég fer til útlanda þá fer ég alltaf í kökuhús eða bollakökubúðir til að fá innblástur og borða. Ég er mikil kökukerling. Og það er þess vegna sem ég er að þessu. Mér sjálfri finnst svo gott að borða kökur.“
Matreiðslu- og skemmtiþáttur
En um leið hún hefur lokið við bókina fer hún í tökur á nýjum og óhefðbundnum matreiðsluþætti, sem kallast Ísskápastríð, sem sýndur verður á Stöð 2 í vetur. En þættinum mun hún stýra ásamt hinum eina sanna Guðmundi Benediktssyni, eða Gumma Ben, eins og við þekkjum hann flest. Munu þau fá til sín góða gesti sem keppast við að elda úr hráefni sem þeim er afhent.
„Þetta er svolítið annað en ég er vön að gera. Ég er auðvitað búin að gera nokkrar seríur þar sem ég er sjálf í eldhúsinu, en mér finnst þetta mjög spennandi. Það er gaman að fá að vera með öðrum þáttastjórnanda. Þá get ég talað við einhvern annan en sjálfa mig.“
Í hverjum þætti verða tveir keppendur, en þeir vita ekkert hvað þeir eru að fara að elda. „Keppendur velja sér einn ísskáp af sex og þurfa að elda forrétt, aðalrétt og eftirrétt úr hráefninu sem er í þessum ísskápum. Þetta er öðruvísi þáttur en hefur verið gerður, allavega svo við vitum til. Þetta er blanda af Einn, tveir og elda, Masterchef og fleiri skemmtilegum þáttum. Þetta er bæði matreiðsluþáttur og skemmtiþáttur, þannig þeir sem hafa ekki mikinn áhuga á mat ættu líka að hafa gaman af,“ segir hún.
Hugmyndin frá Loga Bergmann
Keppnin er líka á milli Evu Laufeyjar og Gumma, en þau munu hjálpa sitt hvorum keppandanum í eldamennskunni hverju sinni. „Við ætlum að reyna að byggja þetta þannig upp að Gummi fái þann sem færari er í eldhúsinu á meðan ég fæ þann sem kann minna. Gummi segist að minnsta kosti ekki vera vanur í eldhúsinu, en svo er hann kannski að blöffa og kemur sterkur til leiks. Það getur því allt gerst. Svo eru allskonar tromp og tvist sem eiga eftir að koma bæði áhorfendum og keppendum á óvart,“ segir Eva Laufey, en hugmyndin að þáttunum kemur frá sjónvarpsmanninum Loga Bergmann.
Mynd/Ernir Eyjólfsson
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.