Gamla fólkið í fangelsi!

Mikið rosalega langar mig að segja ykkur hvað mér liggur á hjarta. Amma mín er því miður komin á dvalarheimili. Frábært starf sem þarna fer fram að sjálfsögðu og yndislegt starfsfólk. En það er bara eitt sem brennur mér í brjósti  og ég vildi óska þess að ég gæti gert eitthvað í því. Það er það, að ekki er hægt að hugsa um fólkið sem þarna býr eins og það á skilið. Það eru ekki til peningar til að veita fólkinu sem kom okkur þangað sem við erum þó komin, mannsæmandi ummönun.

Amma þarf að deila herbergi með annarri konu, fær að fara í sturtu einu sinni í viku og það er á föstudögum. Viljum við í alvöru hafa það þannig að það er betri aðstaða í fangelsi en á elli- og dvalarheimilum? Hvað hefur amma mín gert til að verðskulda þetta? Ef við breytum rangt í lífinu, gerum eitthvað á hlut annars, stelum, nauðgum, berjum eða jafnvel drepum, bíður okkar lúxusherbergi með með salerni, sturtu og sjónvarpi. Á staðnum er einnig aðgangur að síma, nettengingu, líkamsrækt og fleira.

Er það til dæmis rétt að hvítflibba glæpamenn dvelja í einbýlishúsi með öllu tilheyrandi? Ég hef heyrt það en vil ekki trúa því. Hvað með ykkur? Ekki misskilja mig, ég vil ekki að fangar fái bara vatn og brauð í hvert mál. Alls ekki. En er ekki rétt að við tökum ákvörðun um að byrja á því að útrýma biðlistum aldraðra eftir dvalarstað og byggjum síðan lúxus fangelsi fyrir glæpamenn? Leysum fangavandamál á ódýrari máta.

Er lausnin kannski sú að setja gamla fólkið í fangelsi? Þar fengi það aðgang að baði, heilsurækt og nettengingu. Það er ekki stolið af þeim og þau fengju greitt í stað þess að greiða. Mín skoðun er nefnilega sú, að maður á ekki að kvíða því að verða gamall, heldur fá að njóta þess.

 ————————

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

SHARE