Í nýju blaði Barnaheilla má finna frásögn Gunnars Hanssonar, leikara, af kynferðislegri misnotkun sem hann þagði yfir og þurfti að lifa einn með í tæpa tvo áratugi. Það var ekki fyrr en árið 2002 þegar Gunnar lék í leikriti sem fjallar að hluta til um kynferðislegt ofbeldi sem hann ákvað að segja frá.
Gunnar var fórnarlamb Karls Vignis.
Gunnar var einn af mörgum þolenda barnaníðingsins Karls Vignis Þorsteinssonar, sem kom fram í Kastljósi og sagði frá sinni reynslu. Gunnar segir að Karl hafi verið vinalegur, traustvekjandi og náði með því móti að hafa völd yfir þolendum sínum. Gunnar segir í viðtali Barnaheilla: „ Þegar ég fór að heyra
raddir og spurningar hjá hinum pikkalóunum, kokkum og þjónum, um hvort ég hefði farið með honum á
Mímisbar, áttaði ég mig ekki á því hvað þeir voru að meina. Þetta var allt sett fram í grínbúningi og aldrei
bein viðvörun. Margir virtust vita að það var eitthvað skrýtið í gangi. En svo lenti ég í því. Nákvæmlega
eins og þeir sögðu. Hann kallar mig inn á Mímisbar á einhvers konar fund og þar misnotar hann mig í
fyrsta skipti, og svo ítrekað yfir sumarið.“ Gunnari fannst hann bera ábyrgð á ofbeldinu með því að stoppa það ekki sjálfur. Hann sagði foreldrum sínum ekki frá ofbeldinu.
Opnaði sig um málið árið 2002
„Ég hafði talið mér trú um að mér fyndist þetta ekkert mál og að ég væri búinn að díla við þetta. En þarna fer mér allt í einu að líða rosalega illa og brotna saman. Við það létti mér alveg ótrúlega mikið og það var eins og ég hefði lést um 50 kíló. Mér leið svo miklu betur yfir því að hafa sagt fra þessu og þá áttaði ég mig á því hversu fáránlegt það var að halda að þetta væri mér að kenna. Og ég fatta að það var einmitt sú hugsun sem varð til þess að ég ræddi þetta aldrei við neinn. Trúin á að ég ætti sök á þessu. Á þessum tímapunkti, þar sem ég er rúmlega þrítugur, orðinn þetta þroskaður og faðir tveggja barna, fatta ég að ég átti ekki break í þessum aðstæðum. Karl Vignir hafði algjöra yfirburði á allan hátt og hann misnotaði vinskap og traust og gerði mann samsekann. Sá skilningur var mikill léttir. Í framhaldinu sagði ég konunni minni frá þessu og svo foreldrum mínum og þá létti mér einn meira.”
Karl Vignir afhjúpaður
Flestir íslendingar sáu fréttir af Karli Vigni eftir umfjöllun og afhjúpun Kastljóss sem varð að einu stærsta samfélagsmáli nútímans. Við íslendingar sáum barnaníðinginn Karl Vigni, afhjúpaðann í sjónvarpinu og þar með var vakin athygli á áratuga langri þöggun samfélagsins. Karl Vignir var loksins handtekinn eftir áratuga misnotkun á ungum drengjum.
Gerendur eru sjúkir.
Að mati Gunnars þurfa að vera til úrræði fyrir aðstandendur en hann bendir á að líka þurfi að hugsa um gerendurna. “Þeir eru sjúkir. Það þarf að finna orsökina fyrir þeirri kennd hjá þeim að girnast börn. Gerendurnir eru ekki bara grimmir vondir karlar sem kippa börnum upp í bíl, þótt þeir geti vissulega verið það. Börnin eru alltaf saklausir þolendur. Við þurfum sem samfélag að rannsaka þessi mál ofan í kjölinn, til að geta komið í veg fyrir þau” Segir Gunnar.
Gunnar telur að strangari viðurlög eða refsingar muni litlu breyta. Hann tekur Steingrím Njálsson sem dæmi um mann sem alltaf var stungið inn en kom alltaf út aftur óbreyttur. Hann hafði ennþá sömu kenndir og hvatir og því þurfi að breyta.
Þú getur séð viðtalið við Gunnar í heild sinni í blaði Barnaheilla hér.