Gerir hlutina á sínum forsendum

Steinunn Jónsdóttir söngkona segist bara geta verið hún sjálf og reynir að bera sig ekki saman við aðra. Það eru annasamir tímar framundan hjá henni í tónlistinni, en á döfinni er meðal annars Evróputúr með Reykjavíkurdætrum og plötugerð með Amabadama.

 

„Ég elska reggí. Það er svo mikil ást og fallegur pólitískur, boðskapur í textunum og transinn í tónlistinni fær mig alltaf til að dansa. Það skemmtilegasta sem að ég geri er að dansa, þannig að þetta er fullkomin tónlistarstefna fyrir mig. Þær athugasemdir sem við í Amabadama fáum oftast eru að fólk geti ekki sleppt því að dilla sér við tónlistina okkar. Það er alveg ótrúlega fallegt,” segir Steinunn Jónsdóttir, söngkona í reggíhljómsveitinni Amabadama og ein af Reykjavíkurdætrum, þegar blaðamaður spyr hvað það sé við reggíið sem er svona heillandi. Hún talar af mikilli ástríðu um tónlistina og það fer ekki á milli mála að svarið kemur beint frá hjartanu.

Vön því að hafa nóg að gera

Steinunn kynntist reggíinu að einhverju ráði fyrir nokkrum árum í gegnum kærastann sinn, heillaðist mjög fljótt og hlustar varla á neitt annað í dag. En við skulum ekki gleyma rappinu sem á sinn sess í lífi hennar líka, enda rappar hún af miklum móð með Reykjavíkurdætrum sem hafa vakið töluverða athygli fyrir hreinskiptna texta og ádeilu á feðraveldið.

En Steinunn vílar ekki fyrir sér að vera í tveimur hljómsveitum og skipta á milli tveggja tónlistarstefna nokkrum sinnum í viku, enda er hún vön því að hafa mörg járn í eldinum.

Hún var til að mynda svo öflug í tómstundastarfinu þegar hún var yngri að hún skilur varla í dag hvernig hún fór að því að púsla öllu saman. Fimm ára gömul byrjaði hún í stúlknakór Margrétar Pálmadóttur, níu ára hóf hún víólunám og á sama tíma æfði hún dans, fyrst í Kramhúsinu og hjá Birnu Björns, og svo í Listdansskólanum.

Með mömmu sem einkabílstjóra

„Ég skil ekki hvernig ég gat átt vini og mamma mín var í fullu starfi að skutla mér á milli staða. En á lokaárinu mínu í menntaskóla kom sá tímapunktur að ég varð að velja annað hvort víóluna eða dansinn. Þetta var farið að skarast of mikið. Ég tók ákvörðun um að leggja víóluna á hilluna því ég hélt að það væri auðveldara að taka hana upp aftur. Og klára þá frekar dansnámið. En svo bað Maggi, kærastinn minn sem er með mér í Amabadama, mig einu sinni að spila á víóluna inn á plötu sem hann var að gera. Þá var ég ekkert búin að spila í þrjú ár og fann strax að það gekk ekki. Ég var búin að missa þetta niður. Ég fór alveg á bömmer því ég hafði lagt mikla vinnu í að þjálfa upp ákveðinn tón, sem var farinn,“ segir Steinunn sem telur sig þó eflaust geta náð honum aftur, með töluverðri vinnu.

Á leið í Evróputúr

Von er á plötu frá Reykjavíkurdætrum í byrjun júní og eftir Secret Solstice hátíðina leggja þær land undir fót og halda í Evróputúr. Þar sem þær koma meðal annars fram á Hróarskeldu og tónlistarhátíðinni FIB á Spáni, sem er ein sú stærsta í Evrópu. Þá eru meðlimir Amababadama byrjaðir að huga að nýrri plötu og á leið út fyrir landsteinana í fyrsta skipti í sumar. Og nóg er að gerast innanlands líka. Í kvöld er hljómsveitin til að mynda með tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði, sem Steinunn er mjög spennt fyrir.

Sonurinn elskar að vera með

En eins og það sé ekki nóg að reyna að púsla verkefnum þessara tveggja hljómsveita saman, þá eiga Steinunn og kærastinn hennar, sem líka er í annarri hljómsveit, þriggja ára son sem þarf sinn tíma. „Við erum mjög heppin að foreldrar okkar og systkini hafa verið dugleg að passa fyrir okkur. Þess vegna gengur þetta. Svo mun sonur okkar örugglega bara koma inn í hljómsveitina með tímanum. Hann syngur bakraddir eða eitthvað,“ segir Steinunn og hlær. „Hann elskar að fá að vera með.“ Sjálf þekkir hún ekkert annað en að vera með lítið barn í tónlistarbransanum, því sonurinn var kominn í heiminn þegar Amabadama sló fyrst í gegn.

Vill ekki fá hrós á kostnað annarra

Amabadama er skipuð níu meðlimum, þar af tveimur söngkonum. Hin söngkona hljómsveitarinnar, Salka Sól Eyfeld, hefur verið töluvert meira í sviðsljósinu en Steinunn, en hún segir enga samkeppni í gangi þeirra á milli um athygli. Þær séu einfaldlega ólíkar týpur með ólíka hæfileika.

„Það er eins og fólk geri ráð fyrir því að það sé einhver samkeppni í gangi þegar konur vinna saman. Ég er í tveimur hljómsveitum, önnur er skipuð fimmtán konum og hin tveimur konum og sjö strákum. Ég verð alveg vör við það að það er alltaf verið að bera okkur stelpurnar saman. Oft þegar að fólk hrósar einni okkar þá setur það út á hinar í leiðinni. Fólk gerir ráð fyrir því að við séum í keppni og heldur að manni finnist gott að heyra að maður sé betri en einhver önnur, en það er ekki þannig. Það er auðvitað eðlilegt að fólk fíli okkur misvel enda er smekkur manna misjafn, en við fáum ekkert út úr því að heyra það. Við erum að vinna saman. Ef við værum í einhverri keppni þá myndi þetta aldrei ganga. Þetta er bara samvinna og allir verða að fá að blómstra á sinn hátt. Þetta á bæði við í Amabadama og í Reykjavíkurdætrum. Ég væri ekkert með þessum konum í hljómsveit ef ég dýrkaði þær ekki og dáði. Ég lít mjög upp til Sölku, til dæmis, og finnst gaman að vinna með henni.“

Getur bara verið hún sjálf

Aðspurð segist Steinunn ekki hafa upplifað sig í skugganum af Sölku Sól, þó hún hafi verið meira áberandi. „Ég viðurkenni að ég tók smá tímabil, þegar ég sá hvað var mikið að gera hjá Sölku, og hugsaði hvort ég væri sjálf ekki að nýta mín tækifæri nógu vel. Ég hugsaði hvort ég ætti líka að vera að gera svona mikið og hvort ég væri kannski bara löt. En svo áttaði ég mig á því að það væri ekki málið. Ég fer bara mína leið og geri það sem hentar mér. Ég var þarna sjálf að bera mig saman við aðra sem maður á ekki að gera. Ég vil frekar gera það sem mig langar og á mínum eigin forsendum heldur en að elta aðra og gera eins og þeir. Ég get bara verið ég og held að það sé ekki þess virði að reyna eitthvað annað.“

Hrós á ekki að stjórna hamingjunni

Steinunn segist ekki viss um það hvort hún myndi yfir höfuð vilja vera meira í sviðsljósinu en hún er í dag. Henni finnst ástandið fínt eins og það er. „Ég er að gera það sem að mér finnst skemmtilegast að gera og það gengur vel. Það er auðvitað fullt af fólki sem þolir ekki mig og tónlistina mína, en það skiptir engu máli. Ef maður nærist á hrósi eða fer á bömmer ef einhver gagnrýnir mann þá á maður ekki að vera að gera áberandi hluti. Maður má ekki láta álit annara stjórna hamingjunni sinni eða því sem að maður er að gera.“

Gaman að dansa skringilega

En þrátt fyrir að hún taki gagnrýni ekki nærri sér, viðurkennir hún alveg að stundum fái hún smá sting í magann þegar hún les eða heyrir neikvæð ummæli um sig eða það sem hún er að gera. „Það fer stundum í taugarnar á mér hvað fólki finnst það mega hafa sterkar skoðanir á því sem aðrir eru að gera. Eins og það viti betur. Það er mjög áhugavert að sjá hvað fullorðið fólk leyfir sér að tala niðrandi um aðra á samfélagsmiðlum, til dæmis. Maður spyr sig hvaða áhrif það hefur á börnin sem að alast upp við þetta. En fyrst við erum komin út í þetta þá verð ég að segja að ég elska samt þegar að fólk setur út það hvernig ég dansa. Einu sinni öskraði einhver á mig að ég dansaði mjög skringilega og mér fannst það mjög gaman. Það er mjög hollt fyrir Íslendinga að sjá fólk dansa skringilega.“

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

Mynd/Rut

SHARE