Landsþekktir Íslendingar velja gagnlegar jólagjafir
Ormalyf, bóluefni, vatnsdæla og næringarmjólk á óskalistanum
Sannar gjafir veita bágstöddum börnum hlýju og vernd
„Nú er sá tími að ganga í garð að við viljum gleðja fólkið sem okkur þykir vænt um og gefa með okkur. Marga vantar kannski ekki neitt, annað en að vita að einhver hugsar hlýlega til þeirra um jólin og sannar gjafir UNICEF eru fallegur vitnisburður um það,“ segir Helga Ólafsdóttir, fjáröflunarfulltrúi UNICEF á Íslandi.
Sífellt fleiri kjósa að láta gott af sér leiða í desember og gleðja vini og ættingja með sannri jólagjöf. Sannar gjafir UNICEF koma alltaf að gagni en þær eru hjálpargögn sem send eru á vettvang til barna í neyð. Nokkrir landsþekktir einstaklingar hafa lagt UNICEF lið og hvetja alla til að gefa sannar gjafir nú um jólin.
Leikarinn Ólafur Darri óskaði sér að fá moskítónet í jólagjöf en hann hitti sjálfur börn sem voru illa haldin af malaríu á ferð sinni um Madagaskar með UNICEF fyrr á árinu. Ein af fyrirbyggjandi leiðum til að koma í veg fyrir smit er að dreifa moskítónetum sem börn sofa undir, í skjóli frá flugunum sem bíta og smita helst á kvöldin og á nóttunni. Malaría dregur ótal börn til dauða á ári hverju svo þessi góða gjöf getur bjargað lífi barna.
„Það fallega við sannar gjafir er að þær gleðja svo marga,“ segir Helga. „Það er gott að gefa sanna gjöf, gaman að þiggja gjafabréf um að hjálpargögn hafi verið send á vettvang í þínu nafni og síðast en ekki síst skipta sannar gjafir sköpum fyrir börn sem eiga um sárt að binda.
Jólahjól fyrir ömmu
Veturinn gekk snemma í garð í Miðausturlöndum í ár en fleiri en 7,3 milljónir barna eru á vergangi vegna átakanna í Sýrlandi, ýmist innan landsins eða í nágrannaríkjunum. Unnsteinn Manuel tónlistar- og þáttagerðarmaður óskaði sér að fá hlýtt ullarteppi í jólagjöf, en ekki til að kúra með sjálfur heldur til að senda til barna sem búa við erfiðar aðstæður í flóttamannabúðum í vetrarhörkum.
Sannar gjafir eru af ólíkum toga og fást í mörgum verðflokkum eins og sjá má á vefsíðunni sannargjafir.is. „Við vitum til þess að nokkur barnabörn tóku sig saman og gáfu ömmu sinni reiðhjól fyrir heilbrigðisstarfsfólk í jólagjöf. Amman varð himinlifandi, rammaði gjafabréfið inn og hengdi upp í stofunni hjá sér,“ segir Helga og bætir við að margir kjósi að gera öll sín jólagjafakaup inni á sannargjafir.is, í rólegheitum fyrir framan tölvuna.
Um sannar gjafir:
Sannar gjafir UNICEF eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn. Gjöfunum sem þú kaupir í vefverslun UNICEF er dreift til barna og fjölskyldna þeirra í samfélögum þar sem þörfin er mest.
Sannar gjafir UNICEF eru keyptar í nafni þess sem þig langar að gleðja. Þú færð fallegt gjafabréf með ljósmynd og lýsingunni á gjöfinni og lætur viðkomandi fá bréfið. Hjálpargögnin sjálf eru hins vegar send úr birgðastöð UNICEF til barna í neyð. Þú getur valið um margs konar hjálpargögn í öllum verðflokkum Öll eiga þau eitt sameiginlegt: Að bæta líf barna um víða veröld.
Um UNICEF:
UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við berjumst fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinnum bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög og hefur að leiðarljósi þá bjargföstu trú að öll heimsins börn eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd. Við erum á vettvangi í yfir 190 löndum og leggjum áherslu á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.
Fylgist með Unicef á www.unicef.is og www.facebook.com/unicefisland
Tengdar greinar:
Andlegt heilbrigði um jólin
Heilsan á aðventunni
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.