Umræðan er ægilega viðkvæm. Ég er einstæð móðir og af flestum talin tekjulág. Fæstir kasta fram spurningunni „Hvað ertu með í mánaðarlaun?” en þeir eru fleiri sem víla sér ekki við að spyrja mig hvaða upphæð ég borga í leigu.
Allflestir gera ráð fyrir því að ég skrapi leifarnar úr pottinum og enn fleiri áætla að ég eigi í megnustu vandræðum með að klæða drenginn minn. Þó er hann hreinn og strokinn. Snyrtilegur til fara. Og iðulega með nýjustu græjur meðferðis. Hann er gaur; rífur buxur og tosar upp bolinn. Týnir stígvélum, borar í nefið og rekur upp hrossahlátur þegar síst á við. En hreinn og strokinn er hann.
Mér þykir ægilega snúið að vera í fyrrgreindri stöðu. Sér í lagi þegar ég er innt eftir því hvað ég borga háa mánaðarleigu. Reyni ég að víkja mér undan spurningunni, þykir mér sem fólk bregðist ókvæða við, eins og um dónaskap af minni hálfu sé að ræða. Þá hvá þeir forvitnu og spyrja hvað ég hafi að fela. Hvísli ég upphæðina út um annað munnvikið, fæ ég ísmeygilegt bros á launum.
Nú, þá hefurðu nú aldeilis efni á að lifa ….
Fyrir skömmu lagði ég fram þá spurningu í ysta hring kunningja minna hvort einhver vissi um trausta barnapíu í útlandinu. Mér var umsvifalaust bent á að hafa samband við Barnavernd. Það ágæta fólk hlyti að hafa svörin. Búa yfir úrlausnum sem þau gætu reitt fram á silfurfati, ætti ég – einstæð móðirin – í hlut.
Já já. Fólk lætur þetta bara vaða. Ég er enda svo diplómatísk að ég reyni að smeygja mér þægilega úr greipum Gróu gömlu hvenær sem hún verður á vegi mínum. Mér er ægilega illa við kjaftasögur. Held meira að segja „góða daga” í heiðri heima við hvern sunnudag; þá tölum við, hugsum og gerum bara góða hluti. Reki dónaskap líkum þeim sem ég lýsi hér að ofan á fjörur mínar, brosi ég iðulega fálátlega, svara stuttlega og reyni að viðhafa hlutleysi.
Baráttur mínar vel ég af kostgæfni og natni, loka hljóðlega á eftir mér og læðist út …
Að vísu rak ég upp stór augu þegar sonur leigusalans hringdi dyrabjöllunni nú fyrir skemmstu. Erindið var að afhenda mér rúllu af ruslapokum. Blíðlyndur á svip, rétti drengurinn mér risavaxna rúlluna og klykkti út með orðunum: „Hann pabbi bað mig að afhenda þér þetta” og með það var hann farinn. Eftir stóð ég með rúlluna í höndum, agndofa og eilítið slegin.
Hún er enn hér á hillunni. Rúllan góða. Ég hef ekkert við hana að gera.
Ég hef ekki lengur tölu á hversu marga poka af notuðum barnafatnaði ég hef farið með í fatagáma undanfarnar vikur. Mér berast nefnilega í sífellu misskildar gjafir. Sem enda í gjafagámum. Konur sem koma með notuð föt af börnum sem eru löngu vaxin úr grasi og enginn annar vill nota. Ein þeirra tróð þremur jökkum í poka fyrir mig um daginn og brást öskuill við þegar ég reyndi að malda í móinn; þegar ég reyndi að segja henni að ég hefði lagt upp í pílagrímsferð til höfuðstöðva H & M í Noregi tveimur dögum áður og fest kaup á ógurlega voldugri vetrarúlpu á son minn. Við skírðum úlpuna. Hún ber nafnið „Norðurpóllinn”.
Þú skalt GJÖRA svo vel að taka þennan fatnað …. *ofsafengið plastpokaskrjáf*
Ég geri mér ekki fulla grein fyrir því á hverju þessi ofsi grundvallast. Hvers vegna mér barst SMS frá ókunnri konu fyrir skemmstu, sem greindi mér blíðmælt frá því að alla sunnudaga væri starfræktur stórkostlegur flóamarkaður sem seldi ódýran fatnað á skólabörn. Ég veit ekki einu sinni hvernig hún fékk símanúmerið mitt. Áður en ég náði að hrista af mér undrunarhrollinn – hélt sú ágæta kona áfram og trúði mér fyrir því að sjálf byggi hún við þröngan fjárhag og hefði einsömul fyrir tveimur börnum að sjá.
Þegar ég í barnslegri einlægni minni þakkaði upplýsingarnar, sagðist ekki hafa not fyrir slíkar upplýsingar en að ég leitaði logandi ljósi að myndlistarnámskeiði fyrir börn – hvort hún vissi um eitt slíkt – varð hún þurr á manninn og benti mér á Google gamla. Hún byggi – sjáið til – í öðru bæjarfélagi og hefði enga hugmynd um hvernig tómstundastarfi fyrir grunnskólabörn væri háttað.
Skömmu síðar sagði ég kunningjakonu frá því, full tilhlökkunar, að ég hefði loks fest augu á svefnsófa í húsgagnaverslun – með þeim afleiðingum að hin sama saup hveljur og bað mig í lengstu lög að leita eftir notuðum sófa á netinu. Það væri svo hryllilega dýrt að spandera aurum í nýja hluti.
Enginn þeirra einstaklinga sem ég segi í forundran frá hér hefur nokkru sinni stigið fæti inn á heimili mitt. Drukkið tebolla við eldhúsborðið, heyrt mig hafa yfir nokkuð í þá veru að ég hafi ekki efni á að sjá barni mínu farborða. Grandskoðað ísskápinn. Flett gegnum reikningana mína. Horft á mig kyssa drenginn minn góða nótt, né þegið með mér bílfar, en bílinn á ég sjálf og hef fyrir lifandis löngu borgað upp í topp.
Sennilega hefur ekkert af þessu enda nokkurn skapaðan hlut með einstaklingsbundna getu mína að gera, né þá staðreynd að faðir barnsins er látinn. Að öllum líkindum gerir almenningur einfaldlega ráð fyrir að einstæð móðir sem í ofanálag er eina foreldri barnsins hljóti að búa við þröngan stakk, sé niðurbrotin og þurfandi á flesta vegu. Myndi fegin grípa matarbita af götunni, soltin á svip og stagi grátandi í í gatslitna sokka þegar kvölda tekur.
Mig er tekið að renna í grun að færri geri sér fulla grein fyrir því að þó annað foreldrið vanti; þó kona ali barn upp einsömul er ekki þar með sagt að fátæktin vomi yfir öllu og sultargólið bergmáli út á götu. Á mína ábyrgð er svo að greina og draga línu, aðgreina hvað tilheyrir mér og hvað ég læt eftir öðrum að eiga við.
Sennilega hefur ekkert af þessu nokkurn skapaðan hlut með raunstöðu mína að gera. Sennilega er um að ræða gróna fordómavellu sem knýr misskilda einstaklinga áfram til „góðra verka” í þágu þeirra sem „minna mega sín” og þurfa á „hjálp þeirra sem betur eru á vegi staddir” að halda.
Einhver ágætur maðurinn lét hugtakið „dramb” falla í samtali okkar á milli fyrir skemmstu.
Ég greip orðið á lofti. Dramb í mínum huga er ofar hroka, ofar stolti. Vegur þyngra.
Mér koma orð Kirkegaard til hugar, þegar ég renni fingrunum yfir lyklaborðið og rita þessi orð. Mér þykir ægilega vænt um hugleiðingar mannsins. Ég reyni að hafa orðin í huga sjálf þegar mig grípur viðstöðulaus löngun til að „hjálpa” öðrum konum sem eru í sambærrilegri stöðu og ég sjálf. Því ætli ég að reiða fram hjálparhönd; ætli ég að styðja við félaga mína verð ég fyrst að spyrja sjálfa mig hvort ég sé fær um að leggja aðstoðina fram í kærleika eða hvort ákvörðun mín grundvallist á þorsta eftir persónulegri friðþægingu sem sefar hugann þegar ég legg höfuðið á koddann að kvöldi.
Til þess að manni geti í raun heppnast að hjálpa annarri manneskju að komast úr einum stað á annan, þá verður maður sérstaklega að hyggja að því hvar hún er stödd og byrja þar. Þetta er leyndardómurinn að baki allri hjálparlist. Hver sá sem ekki veit þetta er haldinn sjálfsblekkingu ef hann telur sig geta hjálpað öðrum. Því að í sannleika sagt, til að geta hjálpað öðrum þá verð ég að skilja meira en hann, en þó fyrst og fremst að skilja það sem hann skilur. Ef mér mistekst það, þá hrekkur allur minn skilningur ekki til að hjálpa honum. Vilji ég samt koma þessum mikla skilningi mínum á framfæri, þá er það af hégóma eða hroka, þannig að í stað þess að verða honum að liði er ég þegar allt kemur til alls að sækjast eftir aðdáun hans. En öll sönn hjálp hefst með auðmýkt: Hjálparinn verður fyrst að auðmýkja sig gagnvart þeim sem hann vill hjálpa og þar með skilja að það að hjálpa er ekki hið sama og að drottna, heldur að þjóna, það að hjálpa er ekki að hafa völd og stjórn, heldur þolinmæði, það að hjálpa er vilji og fúsleiki til þess að viðurkenna það að geta haft rangt fyrir sér og viðurkenning á því að maður skilur ekki alltaf það sem hinn skilur.
Sören Kirkegaard
Heimild: Að velja sjálfan sig – Tilraunir Kirkegaard um mannlífið
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.