Glútenlausar mömmukökur

Þessar smákökur kannast eflaust flestir við af sínu æskuheimili. Þær eru einstaklega bragðgóðar með dísætu kremi á milli. Æðislegar með ískaldri mjólk, já eða nýlöguðu kaffi. Ég hef tileinkað mér glútenlausan lífsstíl og þess vegna langaði mig að gera glútenlausa uppskrift sem ég get þá borðað án eftirmála.

Mömmukökur

125 gr sykur
250 gr síróp
125 gr smjör
1 egg
500 gr Semper glútenlaust hveiti
100 gr möndlumjöl
2 tsk chia blanda (sjá hér að neðan*)
2 tsk matarsódi
½ tsk engifer
1 tsk negull
1 tsk kanill
Hitið sykur, síróp og smjör í potti. Kælið svolítið og hrærið egginu saman við. Blandið þurrefnunum út í. Hnoðið og setjið í kæli. Margar uppskriftir mæla með því að geyma deigið yfir nótt en ég lét þetta deig bara vera í klst.

Fletjið deigið fremur þunnt út og stingið út kökur. Bakið við 190° þar til kökurnar verða millibrúnar eða í uþb 5-7 mínútur.

Krem:
2 bollar flórsykur
1 eggjarauða
3 msk smjör
2 msk rjómi
½ tsk vanillusykur
Þeytið flórsykur og eggjarauðu saman. Blandið smjöri, rjóma og vanillusykri saman við. Þegar kökurnar eru orðnar kaldar eru þær lagðar saman tvær og tvær með kreminu á milli.

*Chia blanda:
Chia blanda er eitthvað sem ég hef verið að nota í staðinn fyrir Xanthan gum, sem er notað til að binda deigið saman og draga úr mylsnu, sem vill oft verða í glútenlausum bakstri. Það er best að setja Chia fræin í blandara.

Aðferð:
Blandar 1 hluta af fræjum á móti 2 hlutum af heitu vatni. T.d. ein matskeið af muldum fræjum á móti 2 matskeiðum af heitu vatni.
Hrærir vel í og leyfir því að hinkra aðeins. Blandan verður þykk og þá er hún tilbúin að fara út í deigið.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here