Góð snyrtiráð frá Sveindísi – Þú getur búið þér til snyrtivörur sjálf – Ódýrt og gott

Mér finnst mjög gaman að finna ódýr og handhæg ráð til ýmissa nota, sérstaklega eitthvað sem viðkemur húðinni og líkama.
Ég er ekkert rosalega hrifin af snyrtivörum, öllum þessum mismunandi efnum sem er verið að hvetja okkur til að kaupa og bera á okkur.  Á hverjum degi fáum við þau skilaboð að húðin okkar muni aldrei verða góð nema við notum þetta eða hitt kremið, að líf okkar verði mun betra ef við fjárfestum í smyrsli sem kostar hálfan herragarð, að bólurnar hverfi ekki á braut nema með þessum og hinum bóluhreinsi og svo framvegis.  Þetta er fyrir það fyrsta rándýrt og svo vitum við í rauninni ekkert hvað er raunverulega í því sem við erum að bera á okkur. Maður þarf nánast háskólagráðu til að geta borið fram þau orð sem standa á innihaldslistanum á sjampóbrúsanum, hvað þá meira!
Þessvegna er ég voðalega hrifin af því sem maður kallar á ensku „DIY“ eða „gerðu það sjálf/ur“.  Þetta eru aðferðir við að gera sjálfur ýmislegt sem maður hefur áður fyrr greitt fyrir dýrum dómum.  Ég er alveg dottin inn í það að finna frekar ódýrari leiðir við að hugsa um andlit og líkamann, með vörum sem er hægt að finna í eldhúsum flesta heimila á landinu og ég er bara mjög ánægð með árangurinn!
Deili hérna nokkrum snyrtiráðum sem ég nýti mér:

Augnhreinsir
Ég er hætt að nota sérstakan augnhreinsivökva eða hreinsiklúta til að ná farða af augunum og andlitinu.  Ég nota núna bara ólífuolíu!  Til hvers að eyða dýrmætum krónum í hreinsiefni þegar maður á frábæran og náttúrulegan hreinsi í eldhússkápnum?  Ólífuolía og volgt vatn virka frábærlega til að ná í burtu farða af andliti og augum.  Dýfi horni á þvottapoka í heitt vatn og set nokkra dropa af ólífuolíu á hann, hreinsa svo andlitið og þríf með heitu vatni eftir á.

Andlitsdekur sem kostar nánast ekkert
Ég er mjög ánægð með húðina mína eftir að ég byrjaði að nota andlitshreinsun með olíum, sem felst í að nota blöndu af laxerolíu og ólífuolíu með heitu vatni og þvottapoka.  Ég nota þetta heimadekur einu sinni í viku og húðin mín er bólufrí og ekki eins olíukennd og hún var áður.  Svo kostar þetta nánast ekkert, flestir eiga til ólífuolíu heima (jafnvel laxerolíuna) en ef ekki eru báðar olíur á fínu verði í verslunum og Apótekum.
(Ég nota þessa blöndu oft einnig sem hreinsiefni fyrir farða, þar sem ég er keypti litla glerflösku í söstrene grene (kostaði bara ca 400kr) undir blönduna og hef hana alltaf inni í skáp á baðinu til að grípa í þegar hentar)
nánar um aðferðina við hreinsun með olíum:  http://viljastyrkur.net/2013/06/09/heima-andlitsdekur/

Þurrar hendur og brotnar neglur
Ég segi það enn einusinni: Ólífuolía!  Allir ættu að eiga ólífuolíu til staðar í skápnum heima þar sem hún er nothæf í svo margt.  Ef neglur eða naglabönd eru illa farin eða þurr er frábært ráð að bera nokkra dropa af ólífuolíu á, þar sem hún er mjög vítamínrík og nærandi.

Heitt og gott bað og mjúk húð eftirá
Til að vega á móti þurri húð (nú eða bara til að dekra sig smá) er ágætt að láta renna í heitt bað og skella matskeið (eða meira, eftir hentugleika) af kókosolíu út í.  Húðin verður silkimjúk eftir á.
Bara passa að þrífa baðið vel þegar baðinu er lokið svo enginn renni við að stíga í það eða uppúr!

Hunanghreinsun á andlitið
Það er líka hægt að nota hunang til að hreinsa húðina í andlitinu.  Það eina sem þarf er hrátt hunang.  Til að hreinsa andlitið ber maður lítið magn (minna en teskeið) af hunangi á andlitið.  Fyrir þá sem eru með mjög þurra húð gæti verið sniðugt að blanda örlítilli mjólk eða rjóma við hunangið.  Þeir sem eru með olíukennda húð ættu hinsvegar að blanda svolítið af sítrónusafa við hunangið.

Kornamaski með höfrum
Til að gera kornamaska með höfrum er einfaldlega fundið til nægt magn af höfrum og þeir settir í blandara og gerðir að dufti, og svo er þeim blandað saman við vökva til að mynda maskann.  Maður sér bara svolítið eftir þörf hversu mikið af höfrum og vökva þarf.

Þurr húð:  Best er að blanda mjólk, rjóma eða hreinni jógúrt við hafrana
Venjuleg húð:  best að blanda vatni, hunangi eða piparmintute við hafrana
Olíukennd húð: best að blanda sítrónusafa eða vatni við hafrana

Svo er kornamaskinn borinn á andlitið (og/eða líkama), honum nuddað létt inn í húðina og forðist að bera hann í augun.  Svo er hann hreinsaður í burtu með volgu vatni.

Það er ótrúlega gaman að föndra svolítið heima hjá sér og dekra aðeins við sig með svona heimaspa  stærsti plúsinn er hvað þetta er allt ódýrt og fljótlegt!

 

Höfundur greinar er Sveindís Þórhallsdóttir. Sveindís er sálfræðinemi og er á leið að hefja sitt þriðja ár í Háskóla Íslands. Hún er auk þess að læra einkaþjálfun í fjarnámi frá Bandaríkjunum og stefnir á að klára það nám í haust. Sveindís heldur úti heimasíðunni viljastyrkur.net þar sem hún skrifar um heilsu og fleira skemmtilegt. 

SHARE