Bland.is og Netgíró halda um þessar mundir góðgerðaruppboð, í tilefni af Mottumars, á Bland.is. Uppboðið er hið glæsilegasta og hvetjum við alla til þess að kynna sér það nánar – smelltu hérna.
Fjöldinn allur af stórmerkilegum vörum og einstakir viðburðir verða boðnir upp, sem dæmi má nefna;
- Árituð treyja frá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta
- Uppistand með Pétri Jóhanni og Auðuni Blöndal
- Treyja íþróttamanns ársins, Jóns Arnórs, sem hann spilaði í á móti Bretum í undankeppni EM í körfubolta.
- Kvöldstund með félögunum Steinda Jr. og Dóra DNA, þar sem boðið verður upp á hina landsfrægu Eðlu.
Þar að auki munu Sveppi og Villi bjóða upp skemmtidagskrá fyrir barnaafmæli og margt fleira. Allar upplýsingar um uppboðin eru á Bland.is.
Allur ágóði af uppboðinu rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Íslands og mun vera nýttur í forvarnir, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknir.
Mottumars er átaksverkefni Krabbameinsfélags Íslands í baráttunni gegn krabbameini hjá karlmönnum.
Þetta er eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Sjálf ætla ég að leggja allt í sölurnar til þess að geta hakkað í mig Eðlu með Steinda og Dóra. Helst íklædd treyjunni hans Jóns Arnórs.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.