Þessi uppskrift er fengin af sælkerablogginu hennar Tinnu Bjargar. Þessi kaka er agalega gómsæt og er kjörið að bjóða upp á hana núna í sumarblíðunni. Ég hvet ykkur eindregið til þess að fylgjast með Tinnu á Facebook og fá þannig allar hennar uppskriftir beint í æð.
Sjá einnig: Frönsk súkkulaðikaka með karamellukeim
Veislubrownie
Brownie-botn
115 g smjör
230 g suðusúkkulaði
150 g sykur
50 g púðursykur
3 egg
1 tsk vanilludropar
80 g hveiti
2 msk kakó
1/4 tsk salt
Bræðið saman í skál yfir heitu vatnsbaði smjör og grófsaxað suðusúkkulaði. Kælið súkkulaðiblönduna í um 10 mínútur. Bætið við einu eggi í einu ásamt vanilludropum. Blandið hveiti, kakó og salti saman við deigið. Sníðið bökunarpappírsörk ofan í botninn á smelluformi og smyrjið formið vel með smjöri eða Pam-spreyi. Hellið brownie-deiginu í formið og bakið neðarlega í ofni við 175° í 30-35 mínútur. Kælið kökubotninn í forminu og setjið hann síðan á kökudisk.
Sjá einnig: Unaðsleg frönsk súkkulaðikaka með Dumle karamellukremi
Vanillurjómi
400 ml léttþeyttur rjómi
1/2 – 2/3 Royal vanillubúðingur
Hrærið vanillubúðingsdufti saman við léttþeyttan rjóma og smyrjið jafnt yfir brownie-botninn. Athugið að rjóminn er mjög fljótur að stífna og því þarf að hafa hraðar hendur.
Sjá einnig: Hættulega góð bananaostakaka
Ávaxtaskreyting
2 kiwi
1 askja jarðarber
1/2 askja blabber
Afhýðið kiwi og skerið í sneiðar ásamt jarðarberjum. Raðið kiwi og jarðarberjum fallega yfir kökuna og fullkomnið verkið með bláberjum.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.