Guðdómleg hnetusmjörsparadís

Þessi svakalega sælgætisbomba kemur af blogginu hennar Erlu Guðmunds. Það er tilvalið að smella í eina svona um helgina, sérstaklega ef þú ert í prófalestri – þá er nú aldeilis bráðnauðsynlegt að gera taka sér hlé og gera vel við sig. 

Ég hvet ykkur til þess að smella einu ,,like” á Facebooksíðuna hennar Erlu – hver vill ekki fá svona dásamlegar uppskriftir beint í æð?

Sjá einnig: Dýrðlegar brownies með Oreo og hnetusmjöri

img_20150426_210836

Guðdómleg hnetusmjörsparadís

Botnar:

2 bollar hveiti

2 bollar sykur

2-3 msk kakó

2 tsk lyftiduft

1 tsk matarsódi

örlítið sjávarsalt

2-3 msk hnetusmjör (má sleppa)

1 1/2 – 2 bollar mjólk

2 egg

1 tappi vanilludropar eða 1 tsk vanillusykur

3/4 bolli olía

150 gr Pipp með karamellu (má einnig sleppa)

  • Ég byrjaði á því að skella öllum þurrefnunum saman í skál og blandaði með sleikju. Næst bætti ég við mjólkinni, eggjunum, vanilludropum, olíu og hnetusmjörinu.
  • Þetta er síðan allt hrært saman þar til deigið lítur vel út. Ef deigið er of blautt þá má bæta við smá hveiti.
  • Næst klíndi ég tvö bökunarform út með smjörlíki og skipti síðan deiginu jafnt á milli í formin.
  •  Ég bætti við karamellupippi og ýtti þá molunum rétt ofan í deigið en það þarf ekki að hylja þá alveg.
  • Þetta er eitthvað sem má alveg sleppa en mér persónulega fannst gott að fá smá karamellu með hnetusmjörinu.
  • Þá er ekkert eftir nema að skella formunum inn í ofn en hann á að vera stilltur á 190° og blástur. Bakist í ca.17 – 22 mínútur, það fer rosalega eftir bökunarofnum þannig ég myndi fylgjast vel með kökunum eftir 17 mínútur.
  • Þegar báðar kökurnar eru bakaðar í gegn þá er þeim kippt út úr ofninum og látnar kólna vel.

Krem

250 gr íslenskt smjör (við stofuhita)

1 egg

4 msk flórsykur

1 tsk vanillusykur

3 msk hnetusmjör

  • Ég skar smjörið í litla bita og skellti þeim í hrærivélaskál þar sem ég lét hrærivélina sjá um að græja smjörið.
  • Næst bætti ég við egginu og blandaði vel saman við smjörið. Síðan sigtaði ég flórsykurinn og vanillusykurinn saman við og lét hrærivélina ganga í smástund.
  • Síðast fer svo hnetusmjörið saman við og allt hrært þar til smjörkremið lítur vel út.  Þetta krem er algjörlega með því betra sem ég hef smakkað. Ef þið eruð miklir hnetusmjörsaðdáendur þá mæli ég klárlega með þessu kremi, ég hefði léttilega getað borðað það eintómt upp úr skálinni.
  • Ég skreytti kökuna svo með ca. 200gr af dökkum súkkulaðihjúp sem ég bræddi yfir vatnsbaði og Reeses kubbum.

Ég mæli eindregið með því að þið prófið þessa, kökur sem innihalda hnetusmjör bara geta ekki klikkað. 

Sjá einnig: Hnetusmjörsmuffins með Nutellakremi

SHARE