Þessi sjúklega gómsæti og sumarlegi kjúklingur er fengin af blogginu hennar Tinnu Bjargar. Að sögn Tinnu er æðislega gott að bera kjúklinginn fram með sinnepssósu úr grískri jógúrt og dálitlu majonesi og sætkartöfluskífum með balsamikgljáa.
Ég mæli eindregið með því að þú fylgist með blogginu hennar Tinnu á Facebook – það er bæði skemmtilegt og stórkostlega girnilegt.
Sjá einnig: Dásamlega ljúffengur pestókjúklingur
Kryddhjúpaður hunangskjúklingur
4 kjúklingabringur
2 msk olía
2 tsk hvítlauksduft
2 tsk chiliduft
1/2 laukduft
1/2 tsk kóríander
1 tsk salt
1 tsk cumin
1/2 bolli fljótandi hunang
1 msk hvítvínsedik
- Skerið kjúklingabringur í tvennt og smyrjið með olíu.
- Blandið hvítlauksdufti, chilidufti, laukdufti, kóríander, salti og cumin saman í skál.
- Veltið kjúklingabringubitum upp úr kryddblöndunni þannig að allir bitar séu vel kryddaðir. Grillið kjúklingabringubitana á háum hita í 3-5 mínútur á hvorri hlið eða þar til þeir verða fulleldaðir.
- Hrærið hunangi og hvítvínsediki saman í litla skál. Penslið kjúklingabringubita á báðum hliðum með hunangsblöndunni síðustu mínútuna á grillinu en skiljið þó um 3 msk eftir í skálinni.
- Takið kjúklingabringubita af grillinu og hellið afgangi hunangsblöndunnar yfir þá.
- Hafið grillið áfram í gangi í nokkrar mínútur og látið það brenna af sér hunangið svo auðveldara sé að hreinsa grillið.
Sjá einnig: Kjúklingur á pönnu með sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk
Sætkartöflustrimlar
1 og 1/2 sæt kartafla
2 msk olía
sjávarsalt
svartur pipar
balsamikgljái
- Afhýðið sætar kartöflur og skerið þær í þunnar skífur með riffluðum hníf.
- Veltið sætkartöfluskífunum upp úr olíu, sjávarsalti og svörtum pipar og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu.
- Grillið kartöfluskífurnar í ofni við 200° í 15-20 mínútur eða þar til endarnir verða stökkir og fallega brúnir.
- Dreifið þeim síðan yfir salatbeð og sprautið balsamikgljáa yfir.
Hunangssinnepssósa
3/4 bolli grísk jógúrt
2 msk Hellmann´s majones
2 msk gult sinnep
4 msk fljótandi hunang
1 msk hvítvínsedik
sjávarsalt
svartur pipar
- Hrærið saman í skál grískri jógúrt, majonesi, gulu sinnepi, hunangi og hvítvínsediki. Smakkið sósuna til með sjávarsalti og svörtum pipar.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.