„Ég hef verið jólabarn síðan ég fæddist, enda var “Heims um ból” fyrsta lagið sem ég söng, aðeins 16 mánaða. Þá bjó ég í Þingeyjarsveit en ég er barnabarn Hauks Ingjaldssonar frá Mýri í Bárðardal,“ segir Guðný María í samtali við Hún.is
„Hann spilaði á fiðlu en amma og þeirra 6 dætur sungu mikið og spiluðu. Eitt sinn var mikil fátækt hjá foreldrum mínum fyrir jólin og við börnin vissum það og ég var með áhyggjur. Einn morgun er við komum út, sjáum við að það er stór kassi á brúsapallinum niður við veg. Við börnin rukum af stað. Þá var kassinn fullur af jólaglaðningi fyrir okkur. Síðan hef ég aldrei efast um tilkomu jólasveinsins og er auðvitað búin að skrifa honum bréf í ár,“ segir Guðný.
Aðspurð um viðtökurnar við nýja jólalaginu hennar segir Guðný að það hafi fengið yndislegar móttökur og að það hafi toppað flest önnur lög á Spotify, nema lagið Akureyrar beib. Hún byrjaði á TikTok í fyrra og segist vera orðin TikTok stjarna með alla sína fylgjendur.
„Þá er ég að taka upp lítil video, út um allt. Klíf fjöll og berst í vondum veðrum, stundum fáklædd og hryn niður í gil og læki. Á öðrum dögum er sem öll veröldin sé leikstjórinn minn, þá birtist sól þegar hún þarf að koma og réttar persónur, án þess að ég hafi planað það. Guðný María er í þessu af öllu hjarta. Þetta bættist ofan á söng minn, laga- textasmíðar Já, upptökur, blöndum, undirspil og söng út um allt sem ég elska. Stundum vinn ég eina og eina nótt við að klippa video eða semja. Þá næ ég því sem ég þarf að gera,“ segir Guðný og bætir við að hún sé dugleg að hlaupa og hún sé að æfa í Hreyfingu.
„Eftir krabbameinskúrinn er ég sem ný kona, eins og “ hvítur stormsveipur” um allt. Minnið betra og nú get ég vaknað eldhress snemma morguns, sem ég hafði ekki lengi getað, vegna krabbans. Hann var í blóði mínu, en nú er ég komin með fullt af blóði á ný. Þá dettur mér svo margt fleira í hug. Ég er með fiðring í maganum af tilhlökkun flesta daga og tvisvar hef ég fengið að sjá Kolbrúnu Hönnu 6 ára ömmustelpu á árinu og eitt sinn 2 ömmubörn fyrir norðan. Bráðum eignast ég 9. barnabarnið, en ég þekki fæst þeirra í sjón. Það hefur verið talað svo illa um mig. Framundan er aðventan með sínum stórkostlegu ævintýrum og söng út um alla bæ. Stundum vildi ég hafa meira tíma með ykkur, en þetta er æðislegt sem ég er að upplifa.“