Ein frábær frá Ljúfmeti.com
Ég byrjaði eldamennskuna um leið og ég kom heim úr vinnunni því ég hafði tekið eftir að rétturinn ætti að sjóða við vægan hita í tvo tíma áður en gulrótum og kartöflum væri bætt út í og þá soðið áfram í hálftíma. Það er því óhætt að segja að rétturinn er ekki reiddur fram í snatri.
Ég verð að viðurkenna að þegar ég var búin að brúna kjötið, laukinn og hvítlaukinn og hellti því næst bjórnum á pönnuna féllu á mig tvær grímur. Mér leist ekkert á þetta lengur en það var ekki aftur snúið úr þessu. Það var ekki fyrr en kjötkrafturinn, sólþurrkuðu tómatarnir og kryddin voru komin út í, byrjað að sjóða og dásamlegur ilmur tók að berast frá pottinum að ég andaði léttar. Það lék engin vafi á að þetta yrði gott.
Þó að eldunartíminn sé langur þá fer ekki mikill tími í að útbúa réttinn. Aðalatriðið er að byrja nógu snemma og síðan er hægt að dunda sér við önnur störf á meðan rétturinn sýður við vægan hita á pönnunni.
Gúllas með sólþurrkuðum tómötum
- um 900 g nautagúllas
- 2 msk ólívuolía
- 1 laukur, hakkaður
- 4 hvítlauksrif, fínhökkuð
- 1 litil bjórdós (33 cl.). Ég var með Víking.
- 2 msk Worcester sósa
- 4 bollar vatn
- 2 nautateningar
- 1 grænmetisteningur
- ½ bolli sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir
- ½ tsk salt
- ½-1 tsk paprika
- ½ msk dijon sinnep
- rauðar kartöflur, skornar í fernt
- gulrætur, skornar í sneiðar
Hitið ólívuolíu í stórum potti eða djúpri pönnu og brúnið kjötið á öllum hliðum. Færið kjötið yfir á hreinan disk og setjið lauk og hvítlauk í pottinn. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur er bjórnum hellt yfir. Hrærið í pottinum þannig að krafturinn á botninum blandist í vökvann. Bætið Worcester sósu, vatni, krafti, sólþurrkuðum tómötum, salti, papriku og sinnepi í pottin og látið suðuna koma upp. Bætið kjötbitunum í pottinn og lækkið hitann í væga suðu. Látið lokið á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 2 klukkustundir. Bætið þá kartöflum og gulrótum í pottinn og látið sjóða í 30 mínútur til viðbótar. Rétt áður en rétturinn er borinn fram er tekinn 1 bolli af vökva úr pottinum, hrært 2 msk af hveiti saman við og hrært aftur út í pottinn. Þetta er gert til að þykkja sósuna. Berið réttinn fram með góðu brauði með grófri skorpu.