Þetta geggjaða salat kemur frá allskonar.is/
Uppskrift:
- 750gr gulrætur
- 4 msk ólífuolía
- 1 laukur, fínsaxaður
- 3 hvítlaukrif, marin
- 1 rautt eða grænt chili, fræhreinsað og fínsaxað
- 1 vorlaukur fínsaxaður
- 1/2 tsk kóríander, malaður
- 1/2 tsk kanill, malaður
- 1 tsk paprikuduft
- 1 tsk cumin, malað
- 1 msk eplaedik
- 1 msk hunang
- börkur af 1 sítrónu
- 1 dl grísk jógúrt eða sýrður rjómi
- handfylli söxuð steinselja
- 2-3 fíkjur eða döðlur
Undirbúningur: 10 mínútur
Eldunartími: 25 mínútur
Skerðu gulræturnar í bita eða sneiðar, um 1 cm á þykkt. Settu í pott með söltuðu vatni og láttu sjóða í um 8 mínútur eða þar til þær fara að mýkjast en eru samt enþá örlítið stökkar. Helltu vatninu af og leggðu til hliðar.
Hitaðu olíuna í stórri pönnu á meðalhita og steiktu laukinn í 8-10 mínútur, eða þar til hann fer að brúnast. Bættu nú við gulrótunum og öllum innihaldsefnunum nema jógúrtinni/sýrða rjómanum. Veltu öllu vel í pönnunni til að blandist vel saman. Taktu af hitanum og láttu kólna smávegis. Settu í stóra skál, hrærðu jógúrtinni saman við og smakkaðu til með salti og nýmöluðum svörtum pipar.
Stráðu steinseljunni yfir og þunnt sneiddum döðlum eða fíkjum.
Frábært með kjöti eða grænmetisréttum.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!